Lífið

Milljónir aðdáenda Adele sitja eftir miðalausir með sárt ennið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr myndbandi Adele við lagið Hello.
Úr myndbandi Adele við lagið Hello. skjáskot
Það eru fleiri en bara íslenskir aðdáendur Justins Bieber sem ergja sig á miðaskorti. Rúmlega 9 milljón aðdáendur söngkonunnar Adele sátu þannig eftir með sárt ennið þegar miðar á væntanlega tónleikaröð söngkonunnar í Bandaríkjunum seldust upp á mettíma á dögunum.

Alls börðust 10 milljón manns um 750 þúsund miða er fram kemur í færslu á vef síðunnar Ticketmaster sem hélt utan um miðasöluna.

Sjá einnig: Tix.is um Bieber-miðasöluna: Of hratt hleypt inn í röðina

Hvergi var ásóknin þó meiri en í New York þar sem 120 þúsund miðar voru í boði á sex tónleika Adele í Madison Square Garden. Eftirspurnin á þá tónleika var rúmlega 30-föld en um 4 milljón manns sóttust eftir umræddum miðum.

„Því miður, þegar svo ótrúlegur listamaður á í hlut og eftirspurnin er jafn gríðarleg eftir fáum miðum, þá munu óneitanlega einhverjir aðdáendur verða svekktir,“ sagði forstjóri Ticketmaster í færslunni.

Netverjar gerðu sér að sjálfsögðu mat úr þessu og fylltust samskiptaforritin af færslum um miðasölusvekkelsið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×