Erlent

Átta milljónir þurfa aðstoð

guðsteinn bjarnason skrifar
Kona í Bhaktapur leitar að eigum sínum innan um rústirnar.
Kona í Bhaktapur leitar að eigum sínum innan um rústirnar. nordicphotos/AFP
NepalSameinuðu þjóðirnar hafa úthlutað 15 milljónum Bandaríkjadala úr neyðarsjóðum sínum til hjálparstarfa í Nepal, þar sem að minnsta kosti fimm þúsund manns létu lífið í jarðskjálftanum mikla.

Að minnsta kosti átta milljónir manna í Nepal eiga nú um sárt að binda eftir jarðskjálftann, þar af um tvær milljónir í þeim tveimur héruðum sem verst urðu úti. Enn er verið að leita í rústunum að fólki sem kann að leynast þar á lífi, þótt vonir um slíkt séu á þrotum. Erfitt hefur verið að koma hjálparstarfsfólki og hjálpargögnum til svæðanna næst upptökum jarðskjálftans, en hann mældist 7,8 stig og er sá kröftugasti sem orðið hefur á þessum slóðum frá árinu 1934.

Hjálp er þó byrjuð að berast þangað, en talsmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna sagði við blaðamenn í Genf í gær að þarna væri þörfin einna brýnust fyrir búnað til að búa til neyðarskýli. Margir hafast við úti undir berum himni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×