Viðskipti innlent

Fá 250 milljónir í sinn hlut

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Borgun. Hagfræðingur segir að fyrirtækið hafi verið selt of lágu verði. Haukur Oddsson er forstjóri Borgunar.
Borgun. Hagfræðingur segir að fyrirtækið hafi verið selt of lágu verði. Haukur Oddsson er forstjóri Borgunar. fréttablaðið/Ernir
Hluthafar í Borgun fengu greiddar 800 milljónir króna í arð vegna síðasta rekstrarárs. Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir arðgreiðsluna nema rétt rúmlega 50 prósentum af hagnaði félagsins á síðasta ári. „Það tekur hluthafana í Eignarhaldsfélaginu Borgun ellefu ár að fá kaupverðið til baka miðað við þessa arðgreiðslu,“ segir Haukur í samtali við Fréttablaðið.

Fréttir af arðgreiðslunum vekja athygli vegna þess að á síðasta ári seldi Landsbankinn 31,2 prósenta hlut í Borgun. Borgun var ekki auglýst til sölu og kaupandinn var Eignarhaldsfélagið Borgun. Það félag er meðal annars í eigu Stálskipa ehf., Péturs Stefánssonar ehf., og P 126 ehf.

Það hefur líka vakið athygli að Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, er eigandi síðastnefnda félagsins.

Eignarhaldsfélagið Borgun greiddi 2,2 milljarða króna fyrir hlutinn í Borgun, en á þessari stundu liggur ekki nákvæmlega fyrir hvernig kaupverðið var fjármagnað. Hins vegar liggur fyrir að hlutur Eignarhaldsfélagsins í arðinum nemur 250 milljónum króna. Að frádregnum fjármagnstekjuskatti munu þeir svo fá 200 milljónir í sinn hlut.

Sigríður Mogensen hagfræðingur.
Sigríður Mogensen hagfræðingur segir það vera lykilatriði að fá upp á borð hvernig staðið var að fjármögnun. „Lykilatriði til að átta sig á því hvort þessi arðgreiðsla sé eðlileg er að fá upp á borð hvernig kaupin áttu sér stað, hvernig þau voru fjármögnuð, hvert eiginfjárframlagið var af hálfu eigenda eignarhaldsfélagsins,“ segir Sigríður í samtali við Fréttablaðið. Hún bendir á að þar sem um er að ræða eignarhaldsfélag með takmarkaða ábyrgð þá taki menn ekki mikla áhættu ef hlutirnir fara ekki vel en hagnast mjög mikið með arðgreiðslum og hækkun á virði hlutarins.

„Til þess að geta metið hvort þessi arðgreiðsla er eðlileg og í takti við eðlilega arðsemi af eigin fé þá þarf að koma upp á yfirborðið hvert eiginfjárframlag kaupendanna var og hvernig hluturinn var fjármagnaður,“ segir Sigríður. Það þurfi að upplýsa hvort Landsbankinn veitti seljendalán, hvort aðrir íslenskir bankar hafi fjármagnað eignarhaldsfélagið eða hvort kaupin hafi verið greidd að fullu með eigin fé.

„Öllum þessum spurningum er ósvarað. Ástæðan fyrir því að fólk á rétt á að fá þessar upplýsingar er að þetta er banki í eigu þjóðarinnar. Mjög mikil verðmæti skiptu um hendur fyrir nokkrum mánuðum og það virðist vera góð arðsemi í félaginu sjálfu. Nú er verið að greiða þessa stóru arðgreiðslu sem er í stóru hlutfalli við eigið fé Borgunar þá finnst mér ekki neitt annað koma til greina en að það verði upplýst hvernig þessi kaup áttu sér stað,“ segir Sigríður, en eigið fé Borgunar nam í árslok rúmum fjórum milljörðum króna.

Þá segir Sigríður að þessi arðgreiðsla og hagnaður félagsins sýni að Landsbankinn hafi selt fyrirtækið á of lágu verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×