Tala látinna eftir jarðskjálftann í Nepal er komin yfir 6.000 manns. Nýjustu tölur benda til þess að 6.260 manns hafi látið lífið og 14.000 hafi slasast. Þúsunda er saknað og hundruð þúsunda hafa misst heimili sín. Yfirvöld í Nepal óttast að fjöldi látinna muni fara yfir 10.000.
Þúsundir þorpa hafa gereyðilagst og meirihluti sjúkrahúsa og skóla í fjölmörgum þorpum er alveg ónothæfur.
Ram Sharan Mahat, fjármálaráðherra Nepal, áætlar að í það minnsta þurfi um 2 milljarða dollara til að endurreisa heimili, spítala, opinberar byggingar og sögulegar minjar í landinu.
Yfirvöld í Nepal hafa kallað eftir aukinni fjárhagsaðstoð en þau hafa viðurkennt að þau hafi verið of illa undirbúin fyrir jarðskjálfta af þessum toga. Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað eftir 415 milljónum dollara í uppbyggingar- og björgunarstarf en einungis um 5,8 milljónir hafa safnast.
Embættismenn Evrópusambandsins leggja nú kapp á að hafa uppi á þegnum sambandsins en að sögn talsmanna sambandsins hefur ekki verið hægt að hafa uppi á um 1.000 þegnum sem voru á ferðalagi í Nepal.
Talið er að flestir þeirra hafi verið við fjallgöngu á Everestfjalli eða í strjálbýlum héruðum landsins. Vonast er til þess að margir séu enn á lífi en hafi einfaldlega ekki látið sendiráð sín vita af ferðum sínum.
Vitað er til þess að tólf þegnar sambandsins létust vegna skjálftans en sú tala bliknar vitaskuld í samanburði við fjölda innfæddra sem látist hafa.
Jarðskjálftinn reið yfir mitt landið þann 25. apríl og var 7,8 að stærð.
Erlent