Viðskipti innlent

Sýndargróði eða raunverulegur?

Skjóðan skrifar
Í nýjasta hefti Frjálsrar verslunar er áhugavert viðtal við Herdísi Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands (FSI), en heimild hans til nýfjárfestinga rann út í lok febrúar. Þau fimm ár sem sjóðurinn hefur starfað hafa 43 milljarða fjárfestingar skilað 40 milljarða bókfærðum hagnaði. Herdís hefur stýrt FSI frá því í fyrra.

FSI hefur legið undir margvíslegri gagnrýni. Talað hefur verið um lítið gegnsæi og gagnrýnt að afnot af vörumerkinu Icelandic í Bandaríkjunum voru leigð til erlendra aðila til margra ára. Þá hefur ævintýralegur gróði FSI af sumum fjárfestingum sínum, á borð við Icelandair, verið gagnrýndur og talinn til marks um að FSI hafi fengið eignirnar á óeðlilega lágu verði og jafnvel að fyrirtækin hafi að ósekju verið tekin af fyrri eigendum.

Eignarhald FSI hefur verið til umræðu í tengslum við ráðstöfun eigna en helstu kaupendur margra eigna FSI eru lífeyrissjóðirnir sem eiga FSI.

Einn tilgangur með stofnun FSI á sínum tíma var að gefa lífeyrissjóðum landsins færi á að vinna til baka mikið tap á fjárfestingum sem þeir urðu fyrir í hruninu 2008. Í gegnum FSI sameinuðu þeir fjárfestingarkrafta sína í öflugum sjóði til að njóta góðs af endurreisn íslenskra fyrirtækja og efnahagslífs.

Árangurinn talar sínu máli og 43 milljarða fjárfesting hefur skilað endurheimtum og eignum, sem nú eru metnar á 83 milljarða. Eftir stendur spurningin hvort ekki hafi verið of hart gengið að fyrri eigendum fyrirtækjanna sem FSI eignaðist. Hefðu bankar fremur átt að styðja fyrri eigendur í tímabundnum erfiðleikum eftir allsherjar fjármálahrun en að ganga milli bols og höfuðs á þeim? Margföldun á verðmæti fyrirtækja á örfáum árum gefur slíkum vangaveltum vængi.

Einnig má spyrja hvort hin ríkulega ávöxtun eignanna hafi verið raunveruleg fyrir eigendur FSI. Í mjög mörgum tilfellum hefur hagnaður FSI myndast við það að eigendur FSI hafa keypt hlutabréf af FSI við skráningu fyrirtækja á markað. Áhættan af bréfunum hefur einungis flust frá FSI til eigenda FSI.

Hvað verður um hlutabréfaverð á Íslandi þegar, og ef, tekin verða stór skref til afnáms fjármagnshafta? Er ekki hagnaður lífeyrissjóða af FSI sýndargróði, þar til búið er að selja eignirnar út úr lífeyrissjóðakerfinu?

Skjóðan skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum. Hún er frekju- og leiðindaskjóða, sem lætur ekkert mannlegt sér óviðkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×