Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands (NMSÍ), vonar að ávirðingar Ríkisendurskoðunar vegna aðgerðarleysis stjórnvalda í málefnum safnsins verði til þess stjórnvöld taki af skarið og marki framtíðarstefnu fyrir safnið.
Ríkisendurskoðun, sem er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis, birti svokallaða eftirfylgniskýrslu á mánudag, en eftir úttekt á málefnum NMSÍ árið 2012 var hvatt til að stjórnvöld tækju ákvörðun um starfsemi safnsins, uppbyggingu þess og umfang til framtíðar, enda uppfyllti stofnunin ekki lögbundnar skyldur sínar sem eitt þriggja höfuðsafna Íslands.
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar nú er í raun sú að ekkert hafi verið gert í málefnum safnsins og því hljóti að koma til álita, að óbreyttu, að leggja safnið niður sem sérstaka stofnun og koma starfseminni fyrir með öðrum hætti.
Hilmar bendir á að það glytti í eitt og annað jákvætt í starfseminni, en í fyrsta sinn tekur safnið nú þátt í samsýningu sex safna þar sem m.a. geirfuglinn er til sýnis í Safnahúsinu og gerður hefur verið samstarfssamningur milli Náttúrufræðistofnunar og safnsins um útlán og eftirlit með safnmunum.
„Ég hef enn von um að samstarf megi takast um myndarlega náttúrufræðisýningu í Perlunni, en klukkan tifar og það má ekki dragast mikið lengur að taka ákvörðun um það. Eins er skrifstofuaðstaða safnsins í óvissu hér í Loftskeytastöðinni, húsaleigusamningnum hefur verið sagt upp og aðeins tveir mánuðir til stefnu,“ segir Hilmar og bætir við að staða safnsins sé vissulega ekki glæsileg en vonar að niðurstaða Ríkisendurskoðunar verði til þess að brýna menn til dáða.
„Þjóðin og gestir landsins eiga ekki annað skilið en að eignast safn þar sem staðið er að sýningahaldi og miðlun upplýsinga og fróðleiks um einstaka náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Við reiðum okkur í svo miklum mæli á auðlindir náttúrunnar að fræðsla um hana er grundvallaratriði,“ segir Hilmar.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í viðtali við Fréttablaðið 23. febrúar að vegna skorts á fjármunum yrði ekki ráðist nýbyggingu í tengslum við NMSÍ á næstu árum. Viðræður við Reykjavíkurborg og einkafjárfesti um náttúrugripasýningu Perlunni var þá á lokastigum, að hans sögn.
Innlent