Viðskipti innlent

Hvað er svona merkilegt við útgerð?

Skjóðan skrifar
Tilraun sjávarútvegsráðherra til að framselja í raun varanleg yfirráð yfir makrílnum í íslenskri landhelgi til örfárra útgerðarfyrirtækja er runnin út í sandinn. Kornið sem fyllti mælinn var væntanlega tilkynning frá Fiskistofu um að stofnunin væri engan veginn búin undir að standa fyrir framkvæmd þeirra breytinga sem frumvarp ráðherra felur í sér. Þingmeirihlutinn fer ekki í stríð við þjóðina og mögulega forsetann um þetta mál – ekki að sinni.

Harður áróður hefur verið rekinn fyrir því að íslenskur sjávarútvegur sé svo sérstök atvinnugrein að um hana gildi ekki almennar reglur, sem annars gilda í öllum viðskiptum alls staðar. Grunnur arðbærs sjávarútvegs hér á landi liggur í því að nýta mjög verðmæta og takmarkaða auðlind, sem er í sameign þjóðarinnar.

Fram til þessa hefur aflaheimildum verið úthlutað til eins árs í senn og veiðigjöld verið afskaplega hófleg, alla vega gagnvart stórútgerðinni, sem auk þess að ráða yfir megninu af bolfiskkvótanum situr á nánast öllum uppsjávarkvóta.

Á síðustu árum hafa stjórnvöld reynt að koma á langtímaúthlutun á kvóta sem felur í sér varanlegt framsal til fárra á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Engu virðist breyta hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn. Allir vilja þeir koma kvótanum í varanlegt fóstur hjá stórútgerðinni. Rökin hafa verið þau að útgerð kalli á svo miklar fjárfestingar að nauðsynlegt sé að fyrirsjáanleiki ríki í greininni. Menn muni einfaldlega ekki fjárfesta nema hafa fiskinn ávallt tryggan alla vega 15 ár inn í framtíðina. Fjárfestingarskortur muni leiða til hnignunar íslensks sjávarútvegs og þar með skerða lífskjör þjóðarinnar.

En heldur þessi málflutningur vatni? Hver er munurinn á t.d. útgerðarfyrirtæki og flutningaskipafélagi eða flugfélagi? Ekki kallar flutningastarfsemi eða flugrekstur á minni fjárfestingar en útgerð. Í öllum tilfellum standa eigendur fyrirtækjanna frammi fyrir því að reksturinn er háður mikilli óvissu. Hvernig þróast olíuverð? Hvernig þróast almennt efnahagsástand í heiminum? Hvernig þróast verðlag vörunnar sem verið er að selja? Hví þurfa ekki skipafélög og flugfélög sérstaka niðurgreiðslu eins og útgerðin?

Það þarf auðvitað ekki að afhenda útgerðinni fiskinn í sjónum til varanlegra afnota til að sjávarútvegur á Íslandi skili þjóðarbúinu hámarks tekjum. Það ætti að bjóða upp kvótahlutdeild til hæstbjóðenda til skamms tíma í senn, t.d. til 1-3 ára og hægt er að tryggja með almennum reglum að erlendir kaupendur sogi ekki auðlindina úr landi.

Frjáls markaður með aflaheimildir og efling fiskmarkaða tryggir hráefnisöryggi þeirra sem stunda samkeppnishæfa starfsemi. Svona fyrirkomulag tryggir hámarksafrakstur til þjóðarinnar af auðlindinni en ekki ofurhagnað örfárra handhafa kvótans, eins og nú er.

Skjóðan skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum. Hún er frekju- og leiðindaskjóða, sem lætur ekkert mannlegt sér óviðkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×