Innlent

„Þetta gekk nú bara eins og draumur“

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Hrefna segir þjónustuna á Landspítalanum frábæra miðað við að verkföll ljósmæðra sé í gangi
Hrefna segir þjónustuna á Landspítalanum frábæra miðað við að verkföll ljósmæðra sé í gangi Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta gekk nú bara eins og draumur,“ sagði Hrefna Sif Ármannsdóttir nýbökuð móðir.

Hrefna eignaðist son 10. maí síðastliðinn, á mæðradaginn, ásamt kærasta sínum Stefáni Jóni Sigurðssyni. Hún fann persónulega ekki mikið fyrir verkfalli ljósmæðra á Landspítalanum.

„Allri lágmarksþjónustu er auðvitað sinnt. Þetta er einn af þeim hlutum sem er ekki hægt að fresta,“ segir Hrefna sem lofar þjónustuna sem hún fékk á spítalanum. „Þær eru alveg yndislegar í heimaþjónustunni.“

En Hrefna veit af öðrum mæðrum sem fengu skerta þjónustu vegna verkfalla. „Einhverjar hafa misst af sónar og þurft að endurskipuleggja heimsóknir í mæðravernd.“

Hrefna er í svokölluðum bumbuhóp á Facebook þar sem nýbakaðar og verðandi mæður deila reynslusögum. Hún segir að þar sé upplifun kvenna mismunandi vegna verkfallsins.

Algengt er samkvæmt umræðum á hópnum að mæður geti ekki verið í Hreiðrinu á Landspítalanum og eru settar fjarri nýfæddu barninu sem dvelur á vökudeildinni. Þá eru sumar sem hafa þurft að fresta gangsetningu.

„Veit um konur sem áttu pantaða gangsetningu í gær og voru sendar heim þegar þær mættu og fóru skiljanlega að hágráta og ekkert víst hvernig verður með mína gangsetningu í næstu viku,“ skrifar ein kvennanna í hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×