Viðskipti innlent

Stöðugleikaskilyrði eða stöðugleikaskattur

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason lögðu ríka áherslu á að með aðgerðunum yrði tekið heildstætt á vandanum og ekkert eftirlegufé yrði til staðar.
Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason lögðu ríka áherslu á að með aðgerðunum yrði tekið heildstætt á vandanum og ekkert eftirlegufé yrði til staðar. VÍSIR/GVA
Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason, sem báðir eiga sæti í haftahópi ríkisstjórnarinnar, kynntu tillögurnar á fundinum í gær. Þeir sögðu að aðeins væru tvær leiðir mögulegar gagnvart slitabúum föllnu bankanna við losun fjármagnshaftanna; stöðugleikaskilyrði og stöðugleikaskattur.

Slitabúin hafa til áramóta til að uppfylla stöðugleikaskilyrðin, sem felast í greiðslu stöðugleikaframlags, endurfjármögnun lána, skilyrtu skuldabréfi, afkomuskiptasamningi, innláni í skuldabréf og framsali krafna.

Náist það ekki verður settur á þau stöðugleikaskattur og fer álagning fram 15. apríl 2016. Hann nemur 39 prósentum af stöðu búanna í árslok 2015.

„Auðvitað hefur það ýmsa kosti ef menn að eigin frumkvæði uppfylla öll þau skilyrði sem talin eru nauðsynleg til að réttlæta afléttingu hafta,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í gær. „Það einfaldar málið á ýmsan hátt, þannig að það væri mjög góð niðurstaða að okkar mati. Gangi það hins vegar ekki eftir þá teljum við hina niðurstöðuna góða líka, það er að segja álagningu skattsins. Hvort sem verður þá verðum við mjög sáttir við það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×