Lífið

Fjallið og skylmingadrottningin leika í auglýsingu fyrir áfengisrisa

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hafþór Júlíus Björnsson og Þorbjörg Ágústsdóttir í auglýsingunni.
Hafþór Júlíus Björnsson og Þorbjörg Ágústsdóttir í auglýsingunni. vísir
Íslendingar eiga tvo fulltrúa í nýrri auglýsingaherferð sem einn stærsti áfengisbirgi heims, Brown Forman, gerði fyrir vörumerki sitt, Finlandia Vodka. Aflraunamaðurinn og heljarmennið Hafþór Júlíus Björnsson kemur fram í auglýsingaherferðinni og sömuleiðis skylmingadrottningin Þorbjörg Ágústsdóttir. Þorbjörg hlaut því sem næst heimsfrægð þegar hún var við doktorsrannsóknir í Holuhrauni þegar gaus á síðasta ári.

Um er að ræða auglýsingaherferð á heimsvísu og ber hún nafnið 1000 years of less ordinary og fór í loftið fyrr í mánuðinum við miklar vinsældir um heim allan.

Sjá einnig:Íslandsmeistari í skylmingum fimm kílómetra frá gosstöðvunum

„Þeir höfðu samband við mig árið 2014 og ég tók nokkra Skype-fundi með þeim. Það var smá vesen að finna stað og stund fyrir þetta því ég var svo upptekinn á þessum tíma. Þeir komu svo til landsins og tóku þetta upp í gymminu mínu,“ segir Hafþór Júlíus.

Auglýsingaherferðin sýnir nokkra áhugaverða aðila sem fara sínar eigin leiðir í lífinu. Einn af þeim er Hafþór Júlíus, sem hefur gert það gott bæði í kraftakeppnum og á leiklistarferli sínum í Game of Thrones. Er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingur hefur fengið svo stórt hlutverk í alþjóðlegri áfengisauglýsingu sem þessari.

Hafþór Júlíus er orðinn vanur því að sjá sjálfan sig á sjónvarpsskjánum og er einmitt um þessar mundir að undirbúa sig fyrir tökur á nýrri þáttaröð af Game of Thrones.

„Það er alltaf gaman að sjá sig í sjónvarpinu,“ segir Hafþór Júlíus og hlær. „Það er samt svo fyndið að eftir að maður byrjaði í Game of Thrones, þá er margt annað orðið svo lítið, það er svo mikil snilld að vera partur af þessum þáttum.“ 


Tengdar fréttir

Hinn íslenski Hulk hannar Henson-boli

Heljarmennið Hafþór Júlíus Björnsson hefur stofnað fyrirtæki til að halda utan um starfsemi sína. Hann hannar vinsæla boli og ætlar sér að verða sá sterkasti í heimi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×