Flestir vilja sjá Jón Gnarr, ritstjóra innlendrar dagskrárgerðar hjá 365 og fyrrverandi borgarstjóra, sem forseta Íslands eftir forsetakosningar að ári.
RÚV greindi frá niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup þar sem spurt var út í hvern fólk vildi sjá sem næsta forseta Íslands.
Á eftir Jóni vildu 17 prósent sjá Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem næsta forseta og 11 prósent vildu að Ólafur Ragnar Grímsson sæti áfram sem forseti.
Átta prósent nefndu Þóru Arnórsdóttur, sex prósent Rögnu Árnadóttur, þrjú prósent Davíð Oddsson, tvö prósent nefndu svo Þórarin Eldjárn og Kristínu Ingólfsdóttur.
Einungis 28 prósent tóku afstöðu en þrjú prósent svöruðu á þann veg að þau vildu konu til að gegna embætti forseta Íslands.
Jón Gnarr lýsti því yfir í mars síðastliðnum að hann hygðist ekki bjóða sig fram. Katrín Jakobsdóttir sagði í viðtali við DV að hún ætti erfitt með að sjá sig í hlutverki forseta og Ólafur Ragnar Grímsson sagði í viðtali á Hringbraut í gær að hann væri ekki búinn að gera upp hug sinn um hvort hann hygðist halda áfram í embætti forseta.
Innlent