Viðskipti innlent

Slitnaði upp úr álversdeilunni í nótt

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir að verið sé að semja við alþjóðlegan auðhring sem ekki sé tengdur við íslenskan raunveruleika.
Formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir að verið sé að semja við alþjóðlegan auðhring sem ekki sé tengdur við íslenskan raunveruleika. Vísir/Vilhelm
Upp úr viðræðum starfsmanna álversins í Straumsvík við fyrirtækið slitnaði á fimmta tímanum í morgun eftir nokkurra klukkustunda samningafund. Lítið hefur miðað í samningsátt en viðræður hafa staðið yfir í hátt í eitt ár.

Ríkissáttasemjari boðaði deiluaðila til fundar á þriðjudag. Þá hafði ekki verið fundað í deilunni síðan um miðjan síðasta mánuð. Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir lítið hafa gengið í samningaviðræðum.

„Þetta er óbreytt ástand en við erum að ræða saman. Það er svo sem ekkert nýtt í kortunum og þetta í raun gengur lítið þegar báðir aðilar eru ekki að koma að borðinu með því hugarfari að mætast á miðri leið,“ segir hann.  Hann segist nokkuð svartsýnn á að samningar takist í bráð.

„Rio Tinto er bara búið að leggja fram eitthvað plagg sem við eigum að kyngja með öllu. Þá náttúrulega eru menn ekkert að semja. Við erum ekki að semja við íslenska stjórnendur eða Samtök atvinnulífsins. Við erum að semja hér við þá sem eru að reka alþjóðlegan auðhring og ég held að þeir séu ekkert tengdir við íslenskan raunveruleika. Það er kannski vandamálið okkar,“ segir Guðmundur.

Stjórnendur álversins í Straumsvík hafa meðal annars farið fram á aukna heimild til verktöku og hafa deilurnar meira og minna snúist um þá kröfu. Starfsmenn segjast þó ekki sætta sig við það. Guðmundur segir álverið ekkert hafa dregið í land hvað það varði. „Þeir hafa engar breytingar gert á sínu plaggi,“ segir hann. Það sæti mikilli furðu.

Aðspurður hvort gripið verði til aðgerða að nýju segir hann enga ákvörðun hafa verið tekna í þeim efnum. „Við erum bara að koma úr hátíðunum og það var ákveðið þegar slitnaði endanlega upp úr viðræðunum í desember að við myndum bara láta hátíðirnar líða. Við höfum svo sem ekki sest yfir neitt til að ákveða eitt eða neitt.“


Tengdar fréttir

Ríkissáttasemjari ræður næstu skrefum

Engar viðræður hafa farið fram í kjaradeilu starfsmanna við álverið í Straumsvík frá því verkfalli var aflýst. Samtök atvinnulífsins segja ákvæði um verktöku í veginum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×