Sport

Djammaði í Vegas með hárkollu og gerviskegg

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Manziel í væntanlega sínum síðasta leik með Browns.
Manziel í væntanlega sínum síðasta leik með Browns. vísir/getty
Vandræðapésinn Johnny Manziel hjá Cleveland Browns endaði leiktíðina á því að sjá til þess að hann spilar ekki aftur fyrir félagið.

Hann skellti sér á djammið í Las Vegas um síðustu helgi en lokaleikur Browns fór fram á sunnudeginum. Manziel, oft kallaður Johnny Football, fékk heilahristing helgina áður og átti að mæta í skoðun á sunnudagsmorgninum fyrir leik. Hann lét ekki sjá sig.

Ástæðan er líklega sú að hann fór huldu höfði í Las Vegas þar sem hann skemmti sér með vinum sínum. Manziel hafði mikið fyrir því að þekkjast ekki.

Hann var með hárkollu og gerviskegg svo hann myndi ekki þekkjast. Einnig var hann með gleraugu og kallaði sig Billy. Fjölmörg vitni báru aftur á móti kennsl á hann þó svo ekki hafi enn birst mynd af honum á netinu í dulargervinu.

Félagið mun væntanlega losa sig við hann á næstu dögum. Hermt er að Manziel vilji fara til Dallas Cowboys en spurning er hvort Kúrekarnir vilji reyna að temja þennan vandræðagemsa.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×