Viðskipti innlent

Veltan jókst um 34% milli 2014 og 2015

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöll Íslands námu 392 milljörðum á nýliðnu ári.
Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöll Íslands námu 392 milljörðum á nýliðnu ári. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Myndarleg aukning varð í viðskiptum á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði á árinu sem er að líða,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands, Nasdaq Iceland, um viðskiptin á árinu 2015.

„Þáttaskil urðu í júní þegar stjórnvöld tilkynntu um aðgerðaáætlun til losunar fjármagnshafta og tóku viðskipti kipp í framhaldinu. Við buðum þrjú ný félög velkomin á markað og fjárfestar á hlutabréfamarkaði nutu vænnar ávöxtunar. Á skuldabréfamarkaði tóku erlendir fjárfestar þátt í viðskiptum með ríkisbréf í auknum mæli og viðskipti með sértryggð skuldabréf bankanna jukust verulega á síðustu mánuðum ársins. Við lítum með tilhlökkun til nýs árs og þeirra tækifæra sem losun fjármagnshafta hefur í för með sér,“ segir Magnús.

Í viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland fyrir árið 2015 kemur fram að heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 392 milljörðum. Þetta er 34 prósenta veltuaukning frá árinu 2014. Þá segir að mest hafi viðskipti með bréf Icelandair Group verið eða 87,4 milljarðar og bréf Marel eða 61,1 milljarður.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 1.996 milljörðum árið 2015. Þetta er 29 prósenta veltuaukning frá árinu 2014. Þá kemur fram í viðskiptayfirlitinu að viðskipti með ríkisbréf námu alls 1.684 milljörðum en viðskipti með íbúðabréf námu 180 milljörðum. Viðskipti með sértryggð skuldabréf bankanna námu 92 milljörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×