Ásgeir Karlsson, yfirmaður á greiningardeild ríkislögreglustjóra, segir að átta lögreglumenn hafi í eigin persónu leitað til ríkislögreglustjóra vegna viðbragðsleysis sem þeir fundu fyrir hjá yfirmönnum sínum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Umkvörtunarefnið var samstarfsmaður þeirra til margra ára, lögreglufulltrúi hjá fíkniefnadeild sem nú hefur verið vikið frá störfum á meðan mál hans er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.
„Staðreynd málsins er sú að það koma hingað átta lögreglumenn og tala við okkur. Þeir lýsa yfir áhyggjum sínum með stöðuna,“ segir Ásgeir í samtali við Vísi. Um árabil hafa verið háværar ásakanir í garð lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeildinni, ásakanir frá samstarfsmönnum sem eru enn við störf og hafa fært sig um set, en sömuleiðis frá aðilum utan úr bæ, upplýsingagjöfum.
Yfirmenn fulltrúans í fíkniefnadeild sáu þó í tæpan áratug aldrei ástæðu til að láta óháðan aðila, ríkissaksóknara, skoða hvort eitthvað væri hæft í ásökununum. Hann gegndi um tíma yfirmannsstöðu í bæði upplýsinga- og fíkniefnadeild sem þykir afar umdeilt.
Sameinuðust loks um athugasemdirnar
Starfsemi fíkniefnadeildar er afar leynileg enda rannsóknir viðkvæmar og mikilvægt að traust ríki meðal þeirra sem sinna rannsóknum. Oft er stuðst við hlerunarbúnað, eftirfararbúnað og leynilegar myndavélar í þeim tilgangi að reyna að ná til stóru fiskanna í fíkniefnaheiminum, þeirra sem fjármagna innflutning og sjá um dreifingu hér á landi.
Eftir áralangar efasemdir fóru samstarfsmenn hjá fíkniefnadeild að ræða saman um stöðu mála og úr varð að níu urðu sammála um að breytingar yrði að gera. Mál lögreglufulltrúans yrði að taka til rannsóknar.
Rétt er að taka fram að nokkrir starfsmenn hafa áður og raunar endurtekið gert hver fyrir sig athugasemdir við störf mannsins. Í fyrsta skipti í vor myndaðist hópur manna, meirihluti starfsmanna deildarinnar, sem var ofboðið.
Fóru framhjá Aldísi og fengu engin viðbrögð hjá Friðriki Smára
Innan lögreglu er verklagið þannig að starfsmenn eiga að leita til síns næsta yfirmanns með umkvörtunarefni sín. Aldís Hilmarsdóttir og svo Friðrik Smári Björgvinsson eru næstu yfirmenn í fíkniefnadeild en hópurinn mun ekki hafa treyst sér ekki til að viðra áhyggjurnar við Aldísi vegna þess hve náið samband fulltrúans og Aldísar var.
Fóru þeir til Friðriks Smára en fengu engin viðbrögð frá honum. Þá mátu þeir stöðuna svo að þeir þyrftu að fara framhjá yfirmönnum sínum og leita annað með málið.
„Þeir leita hingað af því þeir fá ekki framgang hjá LRH,“ segir Ásgeir. „Þess vegna koma þeir hingað.“
Ásakanir snúa að brotum í starfi
Af þeim níu sem að í sameiningu höfðu lýst yfir áhyggjum við Friðrik Smára héldu átta til ríkislögreglustjóra. Þar voru menn ekki í neinum vafa að athugasemdirnar væru það alvarlegar að þær þyrftu að fara á borð ríkissaksóknara sem hafði þar til um áramót það hlutverk að rannsaka lögreglumenn sem grunur leikur á að hafi gerst brotlegur í starfi.
Héraðssaksóknari tók við því hlutverki um áramót og fór mál fulltrúans í framhaldinu inn á borð hans og er nú til formlegrar rannsóknar.
Aðspurður hvort athugasemdir samstarfsmanna fulltrúans hafi snúið að samstarfsörðugleikum eða hvort ásakanir hafi verið um brot í starfi segir Ásgeir að samstarfsörðugleikar séu ekki mál sem fari á borð ríkissaksóknara. Ásakanir snúi að meintum brotum í starfi.
„Við mátum málið það alvarlegt að það yrði að upplýsa ríkissaksóknara um málið.“
Vísuðu málinu strax til ríkissaksóknara
Ásgeir staðfestir að ríkissaksóknara hafi verið kynnt málið þann 15. maí í fyrra eftir að lögreglumennirnir leituðu til ríkislögreglustjóra.
Málið hafi verið unnið í samvinnu við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, áður en því var vísað áfram.
„Við hefðum aldrei vísað þessu áfram nema við teldum málið það alvarlegt að ekki væri annað hægt en að kynna ríkissaksóknara málið.“
Á sama tíma var lögreglufulltrúinn færður til í starfi, úr fíkniefnadeild og yfir í kynferðisbrotadeild. Sú ákvörðun Sigríðar Bjarkar mæltist ekki vel fyrir hjá Aldísi og Friðriki Smára samkvæmt heimildum Vísis.
Segir niðurstöðu Karls Steinars afdráttarlausa
Eins og fram hefur komið í fréttum Vísis af málinu eru ásakanir á hendur lögreglufulltrúanum ekki nýjar af nálinu. Þær hafa verið um árabil og voru meðal annars háværar árið 2011 þegar Karl Steinar Valsson var yfirmaður fíkniefnadeildar.
Fór svo að Karl Steinar kallaði menn á fund og fullyrti við þá að rannsókn hefði farið fram á ásökununum. Þær ættu ekki við rök að styðjast og mönnum væri fyrir bestu að hætta að ræða þær og einbeita sér að vinnu sinni.
Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri staðfesti við Vísi í gær að greinargerð frá Karli Steinari hefði borist sér, Friðriki Smára og yfirstjórn LRH í febrúar 2012. Sagði hann niðurstöðu greinargerðarinnar það afdráttarlausa að ekki hefði þótt tilefni til að fara með málið lengra. Engu skipti þótt Karl Steinar hefði verið nánasti yfirmaður lögreglufulltrúans.
Í skriflegu svari til Vísis vísaði Jón beint í orð Karls Steinars í greinargerðinni:
„...það sé ekkert sem renni stoðum undir sögusagnir um að lögreglufulltrúi sem um ræðir fari ekki að reglum og fyrirmælum og það sé alls engin ástæða til þess að vantreysta honum í því starfi sem hann gegndi“
Ekki annað hægt en að vísa til ríkissaksóknara
Ásgeir segir að ásakanirnar sem komu inn á borð ríkislögreglustjóra síðastliðið vor hafi bæði verið við störf fulltrúans fyrir ársbyrjun 2012, þegar Karl Steinar hélt fyrrnefndan fund með samstarfsmönnum fulltrúans, og eftir.
„Ásakanirnar voru það alvarlegar að ekki var annað hægt en að vísa málinu til ríkissakóknara.“
Rúmu hálfu ári síðar er formleg rannsókn hafin og er málið á borði Ólafs Þórs Haukssonar, héraðssaksóknara. Annar starfsmaður fíkniefnadeildar er einnig til rannsóknar en þar sem mál hans kom upp fyrir áramót mun ríkissaksóknari ljúka þeirri rannsókn.
Báðir lögreglumennirnir hafa verið leystir tímabundið frá störfum á meðan rannsókn fer fram.
„Ásakanirnar voru það alvarlegar að ekki var annað hægt en að vísa málinu til ríkissaksóknara“
Tengdar fréttir
Lögreglufulltrúanum vísað frá störfum
Héraðssaksóknari hóf formlega rannsókn á mánudaginn og í dag var fulltrúanum vísað frá störfum.
Greinargerðin svo afdráttarlaus að ekki var talin ástæða til að vísa málinu til ríkissaksóknara
„Það voru sögusagnir um að maðurinn væri ekki traustins verður en þær sögusagnir voru um atriði sem ekki var hægt að festa hendi á,“ segir Jón H.B. Snorrason.
Ríkislögreglustjóri segir yfirmenn verða að svara hvernig tekið var á ásökununum
Friðrik Smári Björgvinsson og Jón H.B. Snorrason hafa ekki viljað upplýsa hvað gert var við greinargerð Karls Steinars Valssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglu.
Greinargerð Karls Steinars: Taldi enga ástæðu til að vantreysta lögreglufulltrúanum
Jón H.B. Snorrason segir Karl Steinar Valsson hafa skoðað ásakanirnar og ályktað að ekkert væri hæft í þeim.