Innlent

Friðrik Smári vill ekki staðfesta hvort greinargerð Karls Steinars hafi borist

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Friðrik Smári bar ábyrgð á tálbeituaðgerð við Hótel Frón í apríl en umræddur lögreglufulltrúi stýrði aðgerðinni í hans umboði.
Friðrik Smári bar ábyrgð á tálbeituaðgerð við Hótel Frón í apríl en umræddur lögreglufulltrúi stýrði aðgerðinni í hans umboði. Vísir/Anton Brink
Yfirmenn Karls Steinars Valssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar frá 2007 til 2014, vilja ekki staðfesta að Karl Steinar hafi útbúið og komið til sín greinargerð um mál lögreglufulltrúa sem um árabil hefur verið bent á að hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Þeir segjast ekkert geta tjáð sig um málið að svo stöddu.

Ásakanirnar hafa aldrei verið formlega rannsakaðar af ríkissaksóknara samkvæmt heimildum Vísis en þegar ásakanirnar voru hvað háværastar árið 2011 tilkynnti Karl Steinar undirmönnum sínum að rannsókn á þeim hefðu farið fram. Þær væru ekki á rökum reistar og menn skildu hætta að ræða þær.

Karl Steinar sagði í viðtali við Fréttablaðið á laugardaginn að hann hefði sjálfur framkvæmt ákveðna grunnskoðun sem þó mætti ekki kalla rannsókn. Um sé að ræða almenna skoðun þeirra gagna sem liggi fyrir. Út frá því hafi hann útbúið greinargerð sem hann hafi sent til yfirmanna sinna og þannig fylgt öllum reglum.

Geta hvorugir staðfest skil á greinargerð

Umræddir yfirmenn eru Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn og Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri. Í svari við skriflegri fyrirspurn Vísis í dag segjast þeir ekkert geta tjáð sig um málið að svo stöddu. Aðspurðir hvort þeir geti ekki staðfest að umrædd greinargerð hafi borist þeim segjast þeir aftur ekki geta tjáð sig um málið.

Karl Steinar segist ekki hafa haft neina skoðun á því hvort vísa ætti málinu áfram til ríkissaksóknara. Hann hafi verið of nálægur starfsmönnum til að taka afstöðu til þess. Það hafi verið hlutverk yfirmanna hans. Hann vildi ekkert tjá sig um hvað kom fram í greinargerðinni sem hann segist hafa skilað til Friðriks og Jóns.

Karl Steinar segist hafa fylgt öllum verkferlum.Vísir/Ernir
Minnist ekki orðalagsins

Fundinum sem Karl Steinar boðaði til vegna ásakananna man Karl Steinar eftir. Eins og áður er fram komið fullyrti Karl Steinar á fundinum að rannsókn væri lokið á málinu. Hann segist sjálfur ekki muna orðalagið sem hann notaði.

„Ég minnist þess að hafa sagt mínum mönnum að málið væri úr okkar höndum. Við ættum að einbeita okkur að því sem við værum ráðin til þess að gera, sem væri að vinna vinnuna okkar.“

Lögreglufulltrúinn var þrívegis færður til í starfi á síðari hluta ársins 2015. Ábendingar hafa borist yfirmönnum hans árum saman og þá stýrði hann tálbeituaðgerð í umfangsmiklu fíkniefnamáli sem út um þúfur fór í apríl í fyrra. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×