Sport

NFL: Rodgers minnti á sig í sigri Green Bay

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aaron Rodgers náði að þagga niður í efasemdarröddum með öflugri frammistöðu gegn Washington Redskins í síðasta leik helgarinnar í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Washington byrjaði mun betur í leiknum og komst í 11-0 forystu en Green Bay hrökk þá í gang og vann leikinn að lokum, 35-18.

Eftir rólega byrjun sá Rodgers til þess að Green Bay skoraði sautján stig í röð, með snertimarkssendingum á þá Randall Cobb og Davante Adams.

Þá tóku hlaupararnir við en eftir að hafa verið með aðeins sautján jarda í fyrri hálfleik náði Green Bay samtals 141 hlaupajarda í þeim síðari. Þeir Eddie Lacy og James Starks skoruðu báðir snertimark þar að auki.

Eftir góða byrjun á tímabilinu hafði Green Bay hikstað nokkuð á síðari hluta tímabilsins og reiknuðu margir með því að liðið myndi lenda í erfiðleikum í Washington í nótt. En Rodgers er þaulreyndur í úrslitakeppninni og sýndi að hann er enn einn besti leikmaður deildarinnar.

Washington vann síðustu fjóru leiki sína í deildakeppninni en voru stöðvaðir í nótt. Innherjinn Jordan Reed átti stórleik (120 jardar, eitt snertimark) en það dugði ekki til.

Þar með er ljóst að Green Bay mætir Arizona Cardinals um næstu helgi en átta lið eru nú eftir í baráttunni um meistaratitilinn.

Næstu leikir:

Laugardagur 16. janúar:

21.35: New England - Kansas City

01.15: Arizona - Green Bay

Sunnudagur 17. janúar:

18.05: Carolina - Seattle

21.40: Denver - Pittsburgh

NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×