Handbolti

Heimamenn náðu sjöunda sætinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/epa
Gestgjafar Póllands sleiktu sárin eftir annars misheppnað mót hjá liðinu með því að vinna Svíþjóð, 26-24, í leiknum um sjöunda sætið á Evrópumótinu í handbolta í dag.

Bæði lið voru komin í forkeppni Ólympíuleikana fyrir leikinn og því ekki mikið undir, en leikurinn var engu að síður mikil skemmtun.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og náði annað liðið aðeins einu sinni meira en tveggja marka forskoti. Pólverjar komust í 10-6 eftir 21 mínútu leik, en Svíar skoruðu fimm af næstu sex mörkum og jöfnuðu í 11-11. Staðan í hálfleik var svo jöfn, 12-12.

Svíar skoruðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleik en Pólverjar svöruðu um hæl og þannig gekk seinni hálfleikurinn fyrir sig. Jafnt var á flestum tölum og mikil spenna undir restina þó ekki væri mikið undir.

Þegar fimm mínútur voru eftir var staðan enn jöfn, 24-24, en Pólverjar skoruðu síðustu tvö mörkin og tryggðu sér sigurinn, 26-24. Örlítil sárabót fyrir pólska liðið á annars misheppnuðu móti hjá því.

Przemyslaw Krajewski og Bartosz Konitz voru markahæstir Pólverja með fimm mörk, en hjá Svíum skoraði Lukas Nilsson fimm mörk, þó úr ellefu skotum.

Í markinu hjá Póllandi varði Slawomir Szmar þrettán skot og var með 35 prósent hlutfallsmarkvörslu, en í marki Svía tóð Mikael Appelgren vaktina og varði einnig þrettán skot. Hann var með 33 prósent hlutfallsmarkvörslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×