Erlent

Spáir að allt að fjórar milljónir manna muni smitast af Zika-veirunni

Atli Ísleifsson skrifar
Margaret Chan, forstjóri WHO, segir að Zika-veiran hafi farið úr því að vera væg ógn í það að vera skelfilega ógn með harmþrungnar afleiðingar.
Margaret Chan, forstjóri WHO, segir að Zika-veiran hafi farið úr því að vera væg ógn í það að vera skelfilega ógn með harmþrungnar afleiðingar. Vísir/EPA
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur sett saman sérstakt neyðarteymi vegna hraðrar útbreiðslu Zika-veirunnar í Mið- og Suður-Ameríku.

Í frétt BBC kemur fram að stofnunin spáir að milli þrjár og fjórar milljónir manna muni smitast af Zika-veirunni í Norður- og Suður-Ameríku.

Margaret Chan, forstjóri WHO, segir að Zika-veiran hafi farið úr því að vera væg ógn í það að vera skelfilega ógn með harmþrungnar afleiðingar. Nú sé talið að um 1,5 milljón manna hafi sýkst, en einkennin eru í flestum tilvikum væg.

Neyðarteymið mun koma saman á mánudag þar sem rætt verður hvort flokka eigi veiruna sem alheimsógn, en síðast þegar það var gert var eftir að ebólaveiran breiddist hratt út í Vestur-Afríku.

Zika-veiran er talin hafa valdið alvarlegum fæðingargöllum í þúsundum barna í álfunni síðustu mánuði. Hún er lítið þekkt en berst með moskítóflugum.

Veiran er talin valda fósturskaða en á síðasta ári fæddust tæplega þrjú þúsund börn með dverghöfuð sökum hennar. Þá er hún talin hafa dregið fjörutíu ungabörn til dauða á síðasta ári og óttast er að dauðsföllum muni fara fjölgandi.

Dverghöfuð, eða höfuðsmæð, veldur oft skertum vitsmunaþroska sem gerir einstaklingum erfitt að lifa eðlilegu lífi án aðstoðar.

Bandarísk yfirvöld hafa varað óléttar konur við að ferðast til Suður-Ameríku vegna útbreiðslu veirunnar. Þá hafa yfirvöld í Jamaíku, Ekvador, El Salvador og Kólumbíu ráðlagt konum að reyna ekki að verða óléttar að svo stöddu.

Zika-veiran var fyrst greind í Úganda árið 1947, en hefur aldrei breiðst út með þeim hætti og nú er. Brasilísk yfirvöld tilkynntu um fyrstu tilfellin í Suður-Ameríku í maí síðastliðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×