Innlent

Bankasýslumenn boðaðir á fund fjárlaganefndar

Atli Ísleifsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar.
Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar. Vísir/Vilhelm
Fulltrúar Bankasýslu ríkisins hafa verið boðaðir á fund fjárlaganefndar Alþingis til að ræða eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Bankasýslumenn eiga þar að upplýsa hvernig eigendastefnu Bankasýslunnar hafi verið framfylgt á undanförnum misserum og hvernig það verði gert í framtíðinni.

Í bréfi til fulltrúa Bankasýslunnar kemur fram að allt frá því að bankarnir komust í hendurnar á ríkinu hafi reglulega borist fréttir af því að eignir hafi verið seldar án þess farið hafi fram opið útboð og eru þar nefnd Húsasmiðjuna, EJS, Plastprent, Icelandic, Skýrr, EJS, HugAX, Vodafone, Símann og Borgun.

Á fundinum, sem boðaður er á miðvikudaginn 27. janúar verður yfir það sem stofnunin hefur gert til að ná fram markmiðum eigendastefnu og hvernig það verði gert í nánustu framtíð.

„Farið er fram á við forsvarsmenn Bankasýslunnar að þeir upplýsi hvernig eigendastefnunni hafi verið framfylgt á undanförnum misserum og hvernig það verði gert í framtíðinni. Einnig hvort gerðar hafi verið athugasemdir við verklag fjármálafyrirtækjanna sem ríkið á eignarhlut í vegna sölu eigna eða annarrar starfsemi.

Telur Bankasýslan að núverandi stefna og þau tæki sem að stofnunin hafi séu fullnægjandi eða þarf að endurskoða það fyrirkomulag sem nú er við lýði?

Nú liggur fyrir að enn stærri hluti bankakerfisins verður í höndum ríkisins. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að traust ríki á fjármálamarkaði og ekki síst þegar um er að ræða sölu á eignum og eignarhlutum í stærri fyrirtækjum og fjármálastofnunum,“ segir í bréfinu.


Tengdar fréttir

Töldu söluverðið gott

Landsbankinn segir að þegar verið var að semja um söluna á Borgun hafi kaupverðið verið ákveðið í ljósi upplýsinga sem þá lágu fyrir um rekstur Borgunar.

Ekki góð innsýn í Borgun

Samkeppniseftirlitið setti þrýsting á Landsbankann, Arion banka og Íslandsbanka að breyta eignarhaldi á kortafyrirtækjum. Þetta segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×