Sjálfstæð stjórn í bankanum
Árni Páll spurði ráðherrann út í söluna á Borgun í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun en eins og Vísir greindi frá í gær hefur hann kallað eftir að Fjármálaeftirlitið og eftir atvikum þingið rannsaki viðskiptin með Borgun. Viðskiptin hafa sætt gagnrýni lengi fyrir söluferlið og verðið sem hluturinn var seldur á.

„Landsbankinn er með sjálfstæða stjórn og í þá stjórn er skipað eftir lögum og bankasýslan fer síðan með hlutabréfið. Einskonar armslengdar sjónarmið ráða för um skipan stjórnarinnar. Þannig að málefni Landsbankans eru í sjálfu sér ekki á nokkurn einasta hátta, nema bara með almennum hætti eins og á við um önnur fjármálafyrirtæki, á borði fjármálaráðherra,“ sagði hann.
Ber ekki ábyrgð á traustinu
Bjarni sagði það ekki sitt að bera ábyrgð á trausti til Landsbankans. „Það er stjórnenda og stjórnar bankans og eftir atvikum bankasýslunnar sem fer með þessi mál, fjalla um þessi mál og bera á þeim ábyrgð,“ sagði hann og bætti við að hann ætlaði ekki að fara í umræður í þinginu um hvernig staðið var að sölunni á Borgun.

Þarf skýrar reglur
Árni Páll ítrekaði þá afstöðu sína að mikilvægt væri að alvöru rannsókn fari fram á sölunni. „Það skiptir máli að rannsaka þetta vegna þess því fyrir dyrum er frekari sala ríkiseigna,“ sagði hann og vísaði meðal annars til frumvarps Bjarna um að fela eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands að selja ríkiseignir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að stjórn félagsins sé ekki ábyrg fyrir ákvörðunum sínum og að einstaka starfsmenn geti selt eignir fyrir allt að milljarð króna.
Bjarni furðaði sig á því að Árni Páll teldi ekki að allir væru sammála um hvernig selja eigi ríkiseignir. „Ég veit ekki til þess að uppi sé neinn grundvallarágreiningur um það hvernig eigi að standa að sölu ríkiseigna,“ sagði Bjarni í seinna svari sínu. „Á endanum verða jú einhverjir einstaklingar að taka ákvarðanir. Við getum ekki haft þetta þannig að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu í hvert sinn sem á að selja einhverjar eignir.“