Erlent

Obama segir Trump ekki verða forseti Bandaríkjanna

Atli Ísleifsson skrifar
Obama ræddi við blaðamenn á fundi ASEAN-ríkja í Kaliforníu í gær.
Obama ræddi við blaðamenn á fundi ASEAN-ríkja í Kaliforníu í gær. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að auðjöfurinn Donald Trump muni ekki verða forseti þar sem kjósendur geri sér grein fyrir að um „alvarlegt starf“ sé að ræða.

„Ég trúi því enn að Trump verði ekki forseti. Ástæða þess er að ég hef mikla trú á bandarísku þjóðinni,“ segir Obama.

Trump mælist sem stendur með mest fylgi þeirra sem bjóða sig fram til að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins.

Hann sigraði forkosningar flokksins í New Hampshire og skoðanakannanir benda til þess að hann muni bera sigur úr býtum í þeim næstu sem fram fara í Suður-Karólínu á laugardaginn.

Obama ræddi við blaðamenn á fundi ASEAN-ríkja í Kaliforníu í gær þar sem hann sagði að kjósendur myndu ekki velja hann þar sem þeir viti að forsetaembættið sé „alvarlegt starf“.

„Þetta snýst ekki um að stýra spjallþætti eða raunveruleikaþætti, þetta er ekki kynningarstarf, markaðssetning, heldur er þetta erfitt starf. Þetta snýr ekki að því að því að gera hvað sem er til að komast í fréttir þann daginn,“ sagði Obama.

Trump var ekki lengi að svara forsetanum og sagðist taka því sem hrósi að vera gagnrýndur af forseta sem hafi unnið landinu svo mikinn skaða.


Tengdar fréttir

Trump og Sanders rúlluðu upp New Hampshire

Repúblikaninn Donald Trump og Demókratinn Bernie Sanders unnu báðir stórsigra í forvölum flokka sinna í New Hampshire í nótt. Sanders fékk um sextíu prósent atkvæða í ríkinu á meðan Hillary Clinton fékk um fjörutíu prósent og Trump er langt á undan hinum frambjóðendunum hjá Repúblikönum með 35 prósent atkvæða.

Bitrustu kappræður Repúblikana til þessa

Fjölmiðlar ytra eru þeirrar skoðunar að enginn hafi í raun skarað fram úr í þessum kappræðum, þess í stað hafi áhorfendur orðið vitni að bitrustu rifrildum kosningabaráttunnar til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×