Erlent

Trump ósáttur við kynþátt dómara

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump stendur nú í málaferlum vegna Tump háskólans svokallaða. Dómarinn í málinu á rætur sínar að rekja til Spánar og telur Trump að honum sé verulega illa við sig vegna ætlana Trump að byggja vegg við landamæri Mexíkó.

Fólkið sem höfðaði málið gegn Trump hafði verið lofað kennslu í fasteignaviðskiptum. Þau greiddu hins vegar 36 þúsund dali og fengu fyrir það þriggja daga námskeið. Ofan á það hafði þeim verið lofað að fá myndatöku með milljónamæringnum, en þurftu að sætta sig við að láta taka mynd af sér með pappaspjaldi með mynd af Trump.

Stór hluti kennara á námskeiðinu voru fjárfestar sem höfðu orðið gjaldþrota.

Málið kom upp í síðustu kappræðum Repúblikana þegar Marco Rubio sagði fólk hafa tekið lán til að komast í „háskóla Trump“ sem væri ekki ekta skóli.

„Vitið þið hvað þau fengu? Þau fengu að taka mynd af sér með mynd af Donald Trump,“ sagði Rubio.

Ted Cruz greip þá inn í og sagði kjósendum að gera sér grein fyrir því að um svikamál væri að ræða. Ef hann fái tilnefningu Repúblikana gæti hann þurft að fara fyrir rétt í miðri kosningabaráttu og svara spurningum um hvort hann hafi svindlað á fólki.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar segir Trump málinu hefði átt að vera vísað frá fyrir löngu síðan. Það hafi hins vegar ekki verið gert þar sem dómarinn sé á móti honum.

Farið er fram á 40 milljónir dala en lögmaður þeirra sem höfðuðu málið gegn Trump segir að hann hafi í raun svikið mikla peninga frá um fimm þúsund manns.

Trump og fréttamaðurinn ræða Trump University skömmu eftir fjórar mínútur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×