Lífið

Farlama óféti í foreldrahúsum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Marflöt

Nú liggur hálf þjóðin með hor, hálsbólgu og hita upp í rúmi, svoleiðis hálf meðvitundarlaus af verkjatöfluáti og það hreinlega bergmálar inni á flestum vinnustöðum landsins sökum fámennis.

Sjálf er ég ekki að gera mikið til þess að láta hjól atvinnulífsins snúast af því offorsi sem þarf til þess að halda þessu blessaða samfélagi okkar gangandi. Þegar þetta er skrifað ligg ég farlama í foreldrahúsum eftir miniature skurðaðgerð á fæti þar sem brunasárið var fjarlægt með handafli og skurðhníf.

Ég má mig hvergi hræra og ligg því í verkjatöflumóki með fótinn rakleitt upp í loft íklædd víðum velúrjoggingbuxum, eins og einhver þrotuð og cheap útgáfa af 90´s J. Lo.





Ég er ekkert að ýkja þegar ég fullyrði að þetta líkamlega ástand dragi ekki fram það besta í mér. Hvorki andlega, líkamlega né útlitslega.

Nú hef ég legið hér marflöt í úthverfinu hjá foreldrum mínum í nokkra klukkutíma og er strax orðin jafnmikið óféti og ég var á mínum yngri, ómótaðri og viðkvæmari árum.

Vesalings móðir mín veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið enda samskipti okkar verið með eindæmum góð síðastliðin ár, eða allt frá því að ég hóf sjálfstæðan búskap. Að flytja úr foreldrahúsum hefur nefnilega á einhvern undarlegan máta stórkostlega jákvæð áhrif á samskipti manns við fyrrnefnda foreldar. Þau verða miklu meiri vinir manns og maður hættir að vera jafn tilætlunarsamur og erfiður. 

Að minnsta kosti þar til maður hlýtur þriggja stigs bruna á sköflunginn sem þarf að fjarlægja með skurðaðgerð. Þá virðist reisnin, þroskinn og manngæskan yfirgefa mann hratt og örugglega.

Hvítur sykur

Annars lagðist ég einmitt í flensu á dögunum. Var algjör mús og það var ekki sjón að sjá mig.

Þegar ég verð lasin fæ ég mér alltaf Melrose´s te með mjólk og þremur teskeiðum af skjannahvítum sykri enda te eins og hlýtt faðmlag í bolla.

Ég veit að sykur í tei rímar ekki við pjúratískar hugmyndir um heilsu og heilsulífsstíl og ég veit það líka fullvel að musterið er ekki gert til þess að brjóta niður hvítan sykur. En stundum þarf maður bara smá eitthvað extra til þess að lifa það af þegar líkaminn bregst manni.

Í mínu tilfelli er þetta örlitla extra þrjár teskeiðar af sykri. Ég er bara manneskja af holdi og blóði og holdið er veikt eins og við vitum öll.



Vökvi

Ég finn alltaf fyrir svo mikilli pressu að innbyrða vökva þegar ég er að hafa það notalegt. Hafa það kósý með stelpunum, slaka á heima og svo ég tali nú ekki um þegar maður bregður undir sig betri fætinum, sem ég er vissulega ófær um akkúrat núna, og skellir sér út á lífið.

Ég er samt ekki að tala um að vera sífellt að skjóta í sig áfengi í vökvaformi. Ég geri það nú endrum og eins þó ég sé talskona hófdrykkju og siðsemi enda fer það fæstum vel að ráfa um sauðdrukknir.

Ég er bara að tala um svona alls konar vökva; vatn, te, kaffi, gos eða eitthvað annað. Mér finnst alltaf eins og ég þurfi að vera að súpa á einhverju.

Nú er ég vissulega enginn læknir en líkaminn er víst þannig gerður að maður þarf að losa sig við þennan vökva sem maður er að skjóta í sig og oftast nær gerir maður það með því að nýta sér þá salernisaðstöðu sem næst er hverju sinni. Þessa athugun byggi ég á áralangri reynslu.

Almenningssalerni eru auðvitað æðisleg og þvílík bylting fyrir pissugrísi um heim allan en það er eitt sem sturlar mig af miklum móð og það er þegar það eru ekki snagar á almenningssalernum.

Stundum er maður nefnilega í einhvers konar yfirhöfn sem maður þarf að afklæðast til þess að svara kalli náttúrunnar. Og hvað á maður þá að gera við hana?

Ég hef átt margar frústrerandi stundir inni á almenningssalernum, innanlands og í útlöndum, þar sem ég reyni að storka þyngdaraflinu með því að láta flíkur vega salt á hurðarhúnum.

Það endar yfirleitt ekki vel. Ekki vill maður leggja þær frá sér á gólfið og það er algjörlega fáránlegt að pissa í úlpu og hvað þá að sitja með hana í fanginu á meðan maður losar sig við vökvann.





via GIPHY

Símavestið

Mér finnst maður ekki hringja nógu mikið í þá sem standa manni næst. Það er náttúrulega alltaf svo mikið að gera hjá öllum að maður getur ekki hitt alla sem mann langar til að hitta eins oft og lengi og maður vill.

Þá er auðvitað algjör snilld að geta bara hringt en mér finnst fólk oft gleyma þessum valmöguleika á snjallsímaöld. Ég er hins vegar í ákveðnu átaki sem felst í því að hringja oft og mikið í vínkonur mínar.

Stjörnumerkið mitt er tvíburi og eins og stórvinkona mín Sigga Kling segir í marsspánni minni þá er ekkert eins fallegt og frjáls tvíburi.

Því háir það mér talsvert að hafa ekki báðar hendur lausar þegar ég stend í mínu símhringingastússi. Við þessu hef ég þó fundið stórgóða lausn í formi handfrjáls búnaðar og sérstaks vestis sem vill svo vel til að er með vasa sem er eins og sniðinn undir snjallsímann.

Nú vippa ég mér í vestið, skelli handfrjálsa í eyrað og gjamma í símann valsandi um alla íbúð með alla mína útlimi frjálsa. Eins og Björn Jörundur sagði um árið: Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil.

Ég er þó öllu varari við mig þegar ég er úti á meðal fólks og er ekki mikið að notast við handfrjálsa búnaðinn annars staðar en heima.

Ég geri þó fastlega ráð fyrir að þessi spéhræðsla rjátlist af mér fljótlega og ég verði arkandi upp og niður Laugaveginn, djúpt sokkin í samræður og sveiflandi öllum útlimum áður en langt um líður.





via GIPHY


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×