Erlent

Bernie Sanders vann óvæntan sigur í Michigan

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Bernie Sanders vann nauman sigur á Hillary Clinton í forkosningum Demókrata í Michigan í Bandaríkjunum í nótt, þvert á allar spár. Búist hafði verið við því að Clinton myndi vinna ríkið með um 20 prósenta mun en raunin varð önnur og Sanders hafði betur með um það bil þriggja prósenta mun.

Hillary fór hins vegar létt með Sanders í hinu forvalinu sem fram fór í nótt, í Missisippi og því hefur hún aukið forskot sitt í keppninni um útnefningu flokksins.

Hjá repúblikönum heldur Donald Trump áfram sigurgöngu sinni og sigraði í Mississippi og Michigan og Hawaii en Ted Cruz vann í Idaho. Nóttin var hins vegar skelfileg hjá þriðja frambjóðandanum sem talinn er eiga möguleika, Marco Rubio, sem fékk háðuglega útreið og náði ekki einu sinni þriðja sætinu í Michigan og Mississippi.

Sigur Donald Trump er afgerandi þrátt fyrir gífurlegt mótlæti og gagnrýni undanfarna viku. Hann hefur orðið fyrir miklum árásum frá öðrum frambjóðendum, þrýstihópum sem og öðrum Repúblikönum.

Í sigurræðu sinni var Trump umkringdur af vörum sem bera nafn hans eins og steikum, vatni og víni og varði hann viðskiptasögu sína af miklum krafti.

Eftir niðurstöður dagsins í dag er Hillary Clinton komin með 1.214 landsfulltrúa og Sanders með 566. Frambjóðandi Demókrata þarf 2.383 fulltrúa til að hljóta tilnefningu flokksins.

Trump leiðir meðal Repúblikana með 446 fulltrúa. Cruz er með 347, Rubio með 151 og Kasich með 52. Til að hljóta tilnefningu flokksins þarf 1.237 fulltrúa. 

Trump um vörur sínar Blaðamannafundur Bernie Sanders eftir óvæntan sigur í Michigan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×