Erlent

Líkir Trump við bæði Hitler og Mussolini

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Forseti Mexíkó er ekki par hrifinn af Donald Trump.
Forseti Mexíkó er ekki par hrifinn af Donald Trump. Nordicphotos/AFP
„Harðskeyttur málflutningur á borð við þennan hefur leitt til hrikalegra atburða í mannkynssögunni. Þannig komst Mussolini til valda, þannig komst Hitler til valda,“ sagði forseti Mexíkó, Enrique Pena Nieto, um málflutning Donalds Trump í viðtali við mexíkóska dagblaðið Excelsior í gær. 

Líkti forsetinn í viðtalinu Trump við Benito Mussolini, leiðtoga ítalskra fasista í síðari heimsstyrjöld og bandamann hans, Adolf Hitler, leiðtoga nasista í Þýskalandi.

Trump sækist eftir útnefningu repúblikana í Bandaríkjunum til forsetaframboðs og hefur forskot á helstu keppinauta sína, Ted Cruz og Marco Rubio, í baráttunni.

Eitt helsta stefnumál Trumps er að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó sem hann segir að Mexíkóar muni borga fyrir. Þá hefur hann sagt að veggurinn myndi draga úr fjölda ólöglegra innflytjenda til Bandaríkjanna sem og eiturlyfjasmygli.

Pena Nieto segir hins vegar að ríki hans myndi ekki undir neinum kringumstæðum borga fyrir vegginn. Tekur hann þar með í sama streng og tveir fyrirrennarar hans. Vicente Fox, forseti á árunum 2000 til 2006, sagði að Mexíkóar myndu „aldrei borga fyrir þennan fjandans vegg“ í sjónvarpsviðtali í febrúar en Felipe Calderon sem ríkti frá 2006 til 2012 sagði við samlanda sína: „Mexíkóar, við munum  ekki greiða eitt einasta sent fyrir þennan heimskulega vegg.“


Tengdar fréttir

Romney segir Trump vera loddara

Fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, Mitt Romney, hefur hvatt flokksbræður sína til að hafna framboði Donalds Trump.

Leita leiða til að losna við Trump

Ummæli í kappræðum repúblikanaflokksins í gær fóru fyrir neðan beltisstað. Ólga er meðal hluta flokksmanna með gott gengi Donalds Trump og leita þeir allra leiða til að hann hljóti ekki útnefningu flokksins.

Svona gæti Trump valdið kreppu

Eftir niðurstöðu Ofurþriðjudags stefnir allt í það að Donald Trump verði forsetaefni Repúblíkanaflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×