Erlent

Þungavigtarmenn innan Repúblikanaflokksins gagnrýna Trump harðlega

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjársterkir aðilar eru sagðir ætla að afla fjár til að vinna gegn Trump.
Fjársterkir aðilar eru sagðir ætla að afla fjár til að vinna gegn Trump. V'isir/EPA
Þungavigtarmenn innan Repúblikanaflokksins hafa gagnrýnt auðkýfinginn Donald Trump opinberlega og vilja ekki sjá hann sem forsetaefni flokksins. Trump varð hlutskarpastur Repúblikana á Ofur-þriðjudeginum svokallaða en þar hafði hann sigur í sjö fylkjum Bandaríkjanna í forvali flokksins fyrir forsetakosningarnar.

Þessi úrslit setja Trump í ansi vænlega stöðu og allar líkur á að hann verði forsetaefni Repúblikana ef fram heldur sem horfir. Þingmaður Repúblikana, Lindsey Graham, varaði við því í dag að ef Trump yrði valinn forsetaefni flokksins þá myndi hann tapa í forsetakosningunum fyrir frambjóðanda Demókrata. Breska ríkisútvarpið BBC segir frá því á vef sínum að búist sé við því að  fyrrverandi forsetaefni Repúblikana, Mitt Romney, muni gagnrýna Trump harkalega í ræðu sem hann mun flytja á morgun.

Herja ekki á fordóma fólks

Forseti bandaríska þingsins, Repúblikaninn Paul Ryan, hefur einnig talað gegn umdeildri stefnu Trump undanfarna daga. „Við verðum að afneita þeim hópi eða málstað sem er byggður á fordómum. Þessi flokkur herjar ekki á fordóma fólks,“  sagði Paul Ryan, en hörð stefna Trumps gegn innflytjendum er sögð höfða til íhaldsarms flokksins.

Donald Trump hefur gengið illa að afneita David Duke sem lýsti yfir stuðningi við Trump fyrir skemmstu. Duke þessi er leiðtogi Ku Klux Klan samtakanna en leiðtogi Repúblikana á bandaríska þinginu, Mitch McConnell , tók það skýrt fram nýverið að allir þingmenn Repúblikana fordæmdu David Duke og samtökin sem hann leiðir.

Andstaðan sögð mikil

Þá hefur Peter King, þingmaður Repúblikana, gantast með það opinberlega að hann muni segja skilið við stjórnmál ef Trump verður valinn forsetaefni flokksins. 

New York Times greindi frá því að fjársterkir aðilar sem styðja Repúblikana séu nú þegar farnir að íhuga að afla fjár til að vinna gegn Trump.

Hjá Demókrötum er Hillary Clinton sigurstranglegust eftir að hafa hlotið flest atkvæði í sjö fylkjum Bandaríkjanna á Ofur-þriðjudeginum og náði þar með góðu forskoti á helsta keppinaut sinn Bernie Sanders. 


Tengdar fréttir

Sigur Hillary aldrei í hættu

Utanríkisráðherrann fyrrverandi hlaut um þrjá fjórðu hluta atkvæða í Suður-Karólínu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×