Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, vill skoða vandamálið um matarsóun á Íslandi heildrænt. Hún hefur sent fyrirspurn um málið til umhverfis- og auðlindaráðherra.
„Þetta er þriðja eða fjórða fyrirspurnin sem ég legg fram sem snýr að matarsóun. Nýlega voru sett lög í Frakklandi sem leggja bann við því að matvöruverslanir yfir ákveðinni stærð hendi mat. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þau myndu henta á Íslandi, þetta er spurning um hvert ætti að gefa matinn. Sóunin má ekki bara færast til. Við getum skoðað hvort þau passi hérna. Ég vil fá að vita hvort ráðherrann hefur skoðað það,“ segir Brynhildur.
Hún vill að vandinn sé greindur og skoðað sé hversu miklu sé hent, hverju sé hent, og hver hendi mestu svo að við vitum hvar við eigum að byrja. Hún vill einnig vita hversu miklu af matvælum sé hent vegna einhliða skilaréttar.
„Ef vara rennur út á tíma í matvöruverslunum þurfa birgjar að taka hana aftur. Það er ekki hvati fyrir verslunina að koma henni út. Samkeppniseftirlitið hefur gert athugasemd við þetta og starfshópur um matarsóun líka,“ segir Brynhildur Pétursdóttir.
Innlent