Skoðun

Leiðtogi sem nær árangri

Birkir Jón Jónsson skrifar
Stjórnarandstaðan talar nú um að leggja fram vantrauststillögu á hendur forsætisráðherra vegna erlendra eigna eiginkonu hans, á þeim grundvelli að hann hefði átt að upplýsa um þessar eignir löngu fyrr. Þetta er nokkuð merkileg krafa frá stjórnarandstöðunni þar sem engum þingmanni né ráðherra er skylt að gefa upp séreignir maka síns. Þess fyrir utan hefur það alltaf legið fyrir að eiginkona forsætisráðherra sé sterkefnuð kona.

Aðrir leggja málið þannig upp að hægt sé að rengja hæfi forsætisráðherra, þar sem eiginkona hans átti kröfur í þrotabú föllnu bankana. Það verður með sanni segjast að það þykir mér heldur langsótt. Sigmundur Davíð er sá maður sem hefur gengið hvað harðast gegn kröfuhöfunum frá því hann kom í pólitík og undir hans stjórn var samþykkt stöðugleikaframlag sem mun færa ríkissjóði um 500 milljarða krónur, beint eða óbeint. Ekkert var gefið eftir í þeirri vinnu og þrátt fyrir að hafa verið gagnrýndur mjög fyrir orð sín um uppgjör föllnu bankanna í síðustu Alþingiskosningum - það sem hann væri að leggja til væri hreinlega óraunhæft og lýðskrum - hefur hvert einasta atriði í þeim málflutningi hans staðist.

Í raun má segja að efnahagslegt kraftaverk hafi verið unnið á tíma Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra. Ef hans framsýni og eindrægni í því að heimta fjármuni af kröfuhöfum föllnu bankanna hefði ekki notið við þá væri íslenska þjóðarbúið í vondum málum í dag. Það að reyna að gera forsætisráðherra ótrúverðugan í þessu máli er ekki stórmannlegt. Nær væri að þakka Sigmundi Davíð fyrir vel unnið verk. Hann er leiðtogi sem nær árangri.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×