Um þúsund mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan Alþingishúsið klukkan fimm í kvöld en svo skyndilega yfirgaf hópurinn Austurvöll og hélt af stað í átt að stjórnarráðinu. Ekki var stoppað þar, heldur haldið áfram upp Hverfisgötu í átt að höfuðstöðvum Framsóknarflokksins.
Eftir um hálftíma mótmæli á Hverfisgötu var haldið upp Laugarveg í átt til Valhallar, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Það var hópurinn Beinar aðgerðir sem stóð fyrir mótmælunum í dag en þau voru tilkynnt á Facebook síðu þeirra í morgun. Þetta er annar hópur en stóð fyrir mótmælunum í gær en þá voru það Skiltakallarnir, eins og þeir kalla sig, sem sáu um skipulag.
Mótmælendur tístu á meðan á ferðalagi þeirra stóð og deildu myndum á Instagram.
Lögreglan var mætt á staðinn áður en fyrstu mótmælendur náðu að Valhöll. Bjarni Ben var þó fjarri góðu gamni en hann yfirgaf höfuðstöðvarnar og fór yfir á Hilton Hotel áður en lætin hófust.
