Innlent

Ólafur Ragnar vildi ekki svara spurningu um forsetaframboð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson hefur gegnt embætti forseta Íslands frá árinu 1996.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur gegnt embætti forseta Íslands frá árinu 1996. Vísir/GVA
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var spurður að því á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag hvort til greina kæmi að bjóða sig fram til forseta Íslands í sjötta skipti í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er á Íslandi. Hann svaraði ekki spurningu fréttamanns með beinum hætti.

„Eina sem ég hugsa um á þessum dögum, dag og á morgun, er að tryggja það að verði farsæl niðurstað úr þessarri atburðarás sem þing og þjóð verði sátt við,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar greindi frá því í áramótaávarpi sínu að hann myndi ekki bjóða sig fram í forsetakosningum í vor. Hann hefur hins vegar áður ákveðið að bjóða sig fram í ljósi óvissu í samfélaginu

„Það er mikilvægt að næstu skref verði framhald þess árangurs sem við höfum í sameiningu náð. Það sem er eðlilegt að forseti íhugi á stund sem þessarri. Ef það er eitthvað sem maður lærir eftir þennan tíma í embætti forseta þá er það að verkin skipta öllu máli og sem stendur er það hið eina í mínum huga.“

Forsetinn boðaði til fundarins til að upplýsa fjölmiðla um hvað hefði farið fram á fundi hans með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í hádeginu í dag. Þar bað Sigmundur Davíð um heimild til að rjúfa þing. Forsetinn sagðist ekki geta veitt það fyrr en hafa rætt við formenn annarra flokka til að komast að því hvort meirihluti væri fyrir því í þinginu að rjúfa skyldi þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×