„Mínir yfirmenn töldu það ekki fara saman við starf mitt sem fjármálastjóri borgarinnar. Í valinu þess á milli fannst mér eðlilegast að ég veldi borgina,“ segir Birgir.

Tryggvi Pálsson, fráfarandi formaður bankaráðs, og Steinþór Pálsson bankastjóri voru að mestu ánægðir með liðið ár á aðalfundinum í gær en bankinn skilaði 36,5 milljarða króna hagnaði og sagði Tryggvi árið besta rekstarár frá stofnun bankans er hann steig í ræðustól.
Þó sagði Tryggvi að bankaráðið iðraðist hvernig staðið hafi verið að sölu bankans á hlut hans í Borgun. „Við iðrumst þess og hefðum betur getað staðið öðruvísi að sölunni og haft hana í opnu ferli árið 2014. Við hefðum betur áttað okkur á því að þarna væri happdrættisvinningur sem gæti fallið Borgun í skaut,“ sagði Tryggvi og vísaði til þess að Borgun mun hagnast mikið vegna kaupa Visa Inc á Visa Europe.

Hann segir stöðu bankans vera að batna hvert sem litið er. „Þetta var gríðarlega gott ár á alla mælikvarða. Við sjáum að tekjur eru að vaxa vegna aukinna viðskipta. Við erum að auka markaðshlutdeild og lækka kostnað á sama tíma,“ segir Steinþór og bætir við: „Það er góð tilfinning sem gerir bankann hæfari til að standa sig. Hann þarf að geta bætt sig til framtíðar fyrir sína viðskiptavini.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. apríl