Innlent

Enginn enn í forsetaframboði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Forsetaembættið heillar marga ef marka má yfirlýsingar um væntanleg framboð.
Fréttablaðið/GVA
Forsetaembættið heillar marga ef marka má yfirlýsingar um væntanleg framboð. Fréttablaðið/GVA
Þrátt fyrir að dágóður hópur hafi að undanförnu kynnt áform um að bjóða sig fram til em­bættis forseta Íslands hefur enn engin tilkynning um framboð borist til innanríkisráðuneytisins.

Framboðsfresturinn rennur út á miðnætti föstudaginn 20. maí 2016. Þá verða fimm vikur til kjördags sem er laugardagurinn 25. júní.

„Við gerum varla ráð fyrir að formlegar tilkynningar um framboð berist fyrr en í lok þessa frests. Enginn hefur tilkynnt hingað til um framboð eða tilkynnt um tilskilin gögn,“ segir í svari frá Jóhannesi Tómassyni, upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins.

Eins og fram hefur komið þurfa forsetaframbjóðendur að skila meðmælum með framboði sínu frá minnst 1.500 kosningabærum mönnum.

„Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir,“ segir um forsetakosningarnar á vefnum kosning.is.

Enn fremur segir að gert sé ráð fyrir því að yfirkjörstjórnir auglýsi í byrjun maí hvar og hvenær þær taki við meðmælendalistum til staðfestingar á kosningabærni meðmælenda.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. apríl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×