Innlent

Guðni lætur tímann vinna með sér

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur.
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur. vísir/gva
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, segist ekki vera búinn að taka ákvörðun um hvort hann hyggist bjóða sig fram til forseta Íslands en býst við því að gefa svar fyrr en seinna. Hann hefur boðað til fundar í Snorrastofu í Reykholti í kvöld þar sem hann mun flytja erindi undir yfirskriftinni „Forsetar Íslands að fornu og nýju. Átök og álitamál.“

Aðspurður segist Guðni ekki ætla að gefa neitt upp um mögulegt framboð í kvöld; hann sé einungis að fara að tala um bók um forsetaembættið sem hann er að leggja lokahönd á en hann hefur meðal annars setið við skriftir uppi í Reykholti.

Guðni segist ekki vera að láta gera neina könnun um stuðning við mögulegt framboð, en segist vita „af fólki sem er að gera könnun.“

„Kannanir eru góður þjónn en harður húsbóndi. Menn geta aldrei látið kannanir ráða því sem þeir ákveða þó ekki nema vegna þess að þær segja ekki til um hug fólks í framtíðinni,“ segir Guðni í samtali við Vísi.

En ertu að bíða eftir niðurstöðum úr slíkri könnun?



„Nei, ég er ekki að bíða eftir því. Ég er bara að láta tímann vinna með mér, það liggur ekkert á. Það var nú í forsetakjörinu 1996 sem Ólafur Ragnar lá undir feldi mánuðum saman og nánir samstarfsmenn hans ítrekuðu að hann tæki aldrei ákvarðanir í skyndingu,“ segir Guðni.

Ert þú þannig maður, tekur aldrei ákvarðanir í skyndingu?

„Ég get ákveðið mig á svipstundu ef þarf en hafi ég tíma nýti ég hann eins og allir skynsamir menn, Ólafur Ragnar þar meðtalinn,“ segir Guðni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×