Þingmenn Framsóknarflokksins hafa ekki viljað tjá sig um aflandsviðskipti Hrólfs Ölvinssonar, framkvæmdastjóra flokksins. Þingflokksfundur hófst klukkan 12.20 en heimildir fréttastofu herma að þingmenn séu að stilla saman strengi sína og hyggist tjá sig um málið að fundi loknum.
Greint var frá því í Kastljósi í gær að nöfn þriggja manna, sem allir eiga það sameiginlegt að hafa verið áhrifamenn í Framsóknarflokknum, væru að finna í Panama-skjölunum svonefndu. Það eru þeir Finnur Ingólfsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri og ráðherra, Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, og Helgi S. Guðmundsson heitinn, fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans.
Í þættinum kom fram að félag Finns og Helga, sem skráð var í Panama, hafi keypti hlut í Landsbankanum með fé sem fengið var að láni hjá bankanum. Þau viðskipti áttu sér stað árið 2007. Þá var einnig sagt frá fjölda félaga í eigu Hrólfs Ölvissonar. Hrólfur stóð meðal annars í viðskiptum tengdum BM Vallá, en Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi eigandi fyrirtæksins, hefur ítrekað sagt að lög hafi verið brotin.
Hrólfur sagði í skriflegu svari við fyrirspurn Kastljóss að hann hafi upplýst Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, um viðskiptin.
Ítrekað hefur verið reynt að ná tali af Finn og Hrólfi vegna málsins, sem og þingmönnum Framsóknar, en án árangurs.
Þingmenn Framsóknar tjá sig ekki
Tengdar fréttir
Framkvæmdastjóri Framsóknar og fyrrverandi ráðherra brúkuðu aflandsfélög
Nöfn Finns Ingólfssonar, Hrólfs Ölvissonar og Helga S. Magnússonar er að finna í Panama-skjölunum.