Innlent

Bæring hættur við að fara í forsetann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bæring Ólafsson er hættur við að bjóða sig fram til forseta, en þetta staðfestir hann í samtali við Vísi. Hann kveðst ætla að senda fjölmiðlum tilkynningu varðandi þetta í fyrramálið en fyrst var greint frá á vef RÚV.

Aðspurður hvort að það hafi haft áhrif á ákvörðun hans að Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, bjóði sig fram aftur segir Bæring svo vera.

„Ég ætlaði aldrei að bjóða mig fram gegn sitjandi forseta og vil ekki bjóða mig fram gegn sitjandi forseta. Ég hafði sagt það og ég er maður orða minna, íslenska þjóðin getur treyst því,“ segir Bæring í samtali við Vísi.

En gæti hann slegið til aftur að fjórum árum liðnum?

„Maður veit aldrei," segir Bæring.

Bæring er fjórði frambjóðandinn sem hættir við að fara fram í kjölfar þess að Ólafur Ragnar tilkynnti um framboð sitt síðastliðinn mánudag. Hinir þrír eru Guðmundur Franklín Jónsson, Vigfús Bjarni Albertsson og Heimir Örn Hólmarsson.

Alls eru því tólf í framboði til forseta eins og stendur en auk Ólafs Ragnars eru það eftirfarandi: 

Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Hrannar Pétursson, Halla Tómasdóttir, Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Sturla Jónsson, Hildur Þórðardóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Benedikt Kristján Mewes og Magnús Ingi Magnússon.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×