Innlent

Guðni: Ef ríkisstjórn reynir að keyra í gegn ESB-aðild án aðkomu þjóðar verður honum að mæta á Bessastöðum

Birgir Olgeirsson skrifar
„Ég er ekki flokksbundinn og hef aldrei verið í neinum flokki,“ sagði forsetaframbjóðandinn Guðni Th. Jóhannesson í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar var Guðni mættur til að svara fyrir ýmsa gagnrýni sem hann hefur fengið á sig eftir að hafa tilkynnt formlega um framboð sitt í gær.

Þáttastjórnendur bentu á að umræðan í garð Guðna hafi harðnað til muna eftir að hann tilkynnti um framboð sitt og gekkst hann við því. Guðni hefur verið að mælast með töluvert fylgi í skoðanakönnunum og sagði hann ákveðinn púka vera í þjóðarsálinni sem reyni að koma höggstað á þá sem njóta ákveðinnar velgengni til að koma þeim niður á jörðina. Guðni sagðist hins vegar blessunarlega ver undir þá umræðu búinn. 

Þáttastjórnendur nefndu til að mynda að Guðni hefði í umræðum á samfélagsmiðlum verið orðaður við Samfylkinguna og sagður Evrópusambandssinni. Guðni sagðist hafa heyrt þá umræðu og að hann hefði jafnframt verið orðaður við Pírata, Bjarta framtíð og Viðreisn.

„Það á bara eftir að bæta Framsókn við flóruna,“ sagði Guðni. Hann tók fram að hann hafi aldri verið flokksbundinn eða verið í nokkrum flokki. Ef gengið yrði til kosninga um ESB-aðild sagðist Guðni glaður segja nei við slíkri aðild.

Hann tók fram að fyrir nokkrum árum hafi hann verið beðinn um að sitja í samráðshópi á vegum utanríkisráðuneytisins sem skipaður var vegna umsóknarinnar að ESB. Hann var í forsvari fyrir hópnum ásamt Ágústi Sigurðssyni og Salvöru Nordal. Hlutverk hópsins var að kynna kosti og galla aðildar að ESB en Guðni sagði í Reykjavík síðdegis að eftir því sem starfi hópsins vatt fram varð hann sannfærðari um að umsóknina væri feigðarflan.

Hann sagði heldur ekkert benda til þess að farið yrði aftur í umsóknarferli. Hann sagði litlar líkur á að Björt framtíð myndi ná að hrinda því í gegn og ekki væri Samfylkingin lengur á þeim buxunum.

Hann sagði þessa umræðu minna á tíma kalda stríðsins en þá var það notað gegn Kristjáni Eldjárn og Vigdísi Finnbogadóttur að þau hefðu verið andstæðingar hersins og gætu því ekki setið á Bessastöðum. 

Hann sagði ESB-aðild ekki vera á forgangslista hjá þjóðinni í dag en tók fram að ef svo ótrúlega vildi til að einhver ríkisstjórn myndi reyna að keyra í gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu án aðkomu þjóðarinnar yrði honum að mæta á Bessastöðum. 


Tengdar fréttir

Hnífjafnt á milli Ólafs og Guðna

Ef valið stæði á milli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta, og Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings, í forsetakosningunum í júní yrði afar mjótt á munum ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar Frjálsrar verslunar sem gerð var á dögunum.

Sjö prósentum munar á Ólafi og Guðna Th.

Fjörutíu og fimm prósent svarenda myndu kjósa Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta en 38 prósent Guðna Th. Jóhannesson. Guðni kynnir framboð sitt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×