Innlent

Forseti á að vera kappsamur án drambs

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson ræðir við stuðningsmenn.
Guðni Th. Jóhannesson ræðir við stuðningsmenn. vísir/ernir
„Kæru vinir, góðir Íslendingar. í sumar göngum við til forsetakjörs. Ég verð þar í framboði,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, og nú forsetaframbjóðandi, og uppskar dynjandi lófatak frá stuðningsmönnum sínum sem fylltu Salinn í Kópavogi í gær.

„Ég býð mig fram til embættis forseta Íslands vegna þess að ég hef nokkrar hugmyndir um embættið sem mig langar til að fylgja eftir,“ sagði Guðni. „Hvernig forseta viljum við? Við viljum að forseti sé fastur fyrir þegar á þarf að halda. Forseti á að tryggja að þjóðin eigi síðasta orðið í stærstu málum sem hana varðar. Um leið á forseti að standa utan fylkinga í samfélaginu. Fólkið í landinu á að finna að hann sé ekki í liði með einum, á móti öðrum.“

Í meginstefnu Guðna segir: „Forseti Íslands er málsvari landsins á alþjóðavettvangi, andlit okkar í augum heimsins. Hann á að styðja við menningu landsins og listir, atvinnu- og viðskiptalíf. Í atbeina sínum fyrir Íslands hönd á forseti að vera stoltur en hógvær, kappsamur án drambs.“

Þar segir að forseti eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar og að forseti eigi að fara að fordæmi forvera sinna og læra af því sem fer vel og því sem fer miður. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×