Erlent

Trump sá eini sem eftir er í kapphlaupi Repúblikana

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump virðist vera búinn að tryggja sér útnefninguna.
Donald Trump virðist vera búinn að tryggja sér útnefninguna.
John Kasich, ríkisstjóri Ohio, tilkynnti í kvöld opinberlega að hann væri hættur við að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Ekkert virðist nú geta komið í veg fyrir það að Donald Trump verði forsetaefni Repúblikana í forsetakosningum Bandaríkjanna sem haldnar verða í nóvember.

Kasich hafði aðeins unnið sigur í forkosningum Repúblikana í heimaríki sínu Ohio og hafði honum mistekist að halda í við Trump og Ted Cruz. Kasich vonaðist þó til þess að geta barist fyrir útnefningu sinni á flokksþingi Repúblikana í júlí. Það féll þó um sjálft sig eftir yfirburðasigur Trumop í Indiana-ríki þar sem hann nældi sér í alla 57 fulltrúa fylkisins.

Sigurinn gerði það að verkum að Ted Cruz dró framboð sitt til baka í gær og þá stóð Kasich einn eftir á móti Donald Trump í keppninni um hver verði næsta forsetaefni Repúblikanaflokksins.

Fátt sem ekkert virðist nú geta komið í veg fyrir að Donald Trump verði forsetaframbjóðandi Repúblikana-flokksins í væntanlegum kosningum þar sem hann mun að öllum líkindum mæta Hillary Clinton. Eftir á að kjósa í níu ríkjum Bandaríkjanna en þar sem Trump er einn eftir í framboði eru þær forkosningar sem framundan eru nánast formsatriði.

Trump þarf 1.247 kjörmenn til þess að tryggja sér útnefningu Repúblikana-flokksins en hann er nú með stuðning 1.053 kjörmanna. Síðustu forkosningarnar fara fram 7. júní þegar kosið verður samtímis í fimm ríkjum, þar á meðal Kaliforníu.

 


Tengdar fréttir

Cruz lýkur keppni - Sanders með óvæntan sigur

Ted Cruz hefur dregið sig út úr keppninni um hver verði næsta forsetaefni Repúblikaflokksins eftir tap gegn Donald Trump í Indiana í gær. Öldungardeildarþingmaðurinn, sem er frá Texas, gerði lokatilraun til að skáka Trump með því að leggja allt undir í Indiana. Allt kom fyrir ekki og vann Trump yfirburðasigur. Fátt getur því úr þessu komið í veg fyrir að Trump verði forsetaefni flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×