Hluthafar í félögum Novators í Lúxemborg hafa verið skráðir í aflandsfélögum í skattaskjólum. Jafnvel hafa margir hluthafar haft sama heimilisfang á Tortóla. Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að sex Novator félög hafi á einhverjum tíma haft hluthafa sem skráðir voru á aflandseyjum.
Novator er fjárfestingafélag undir forystu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Morgunblaðið skoðaði átta Novator félög í gær en meðal þeirra var félagið Novator Telecom Finland, sem var skráð fyrir rúmum þriðjungshlut í NOVA í ársreikningi 2014. Fjögur af félögunum eru hætt starfsemi en hluthafar hafa verið skráðir á Tortóla, Panama, Bahamaeyjum og Gíbraltar.
Það ár hafi komið fram að Björgólfur Thor færi fyrir um 96 prósenta hlut í NOVA í gegnum tvö félög, Novator ehf. og Novator Finland. Samkvæmt ársreikningum þriggja félaga árið 2014, af þeim átta sem voru skoðuð, voru heildareignir þeirra rúmir 6,6 milljarðar króna.

