Skoðun

Höldum áfram að gera vel ... saman

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sunna Gunnars Marteinsdóttir skrifar
18.maí árið 1976 voru samþykkt á Alþingi ný lög en þau hétu „lög um jafnrétti kvenna og karla.”

Þegar þingskjöl Alþingis eru lesin frá þessum tíma er ljóst að flestir voru sammála um innihald frumvarpsins. Þó eru alltaf einn eða tveir þingmenn sem reyni að draga hina í skemmtilega þrætukenndar umræður um innihaldið útfrá pólitískri hugsjón í hreinasta formi sínu og einfaldaðri mynd. Hér varð engin undantekning þegar stigið var í pontu og frumvarpið sagt „stuðla að nokkurs konar lögregluríki.“

Frumvarpið var afurð mikillar umræðu innan og utan landssteinanna. Sameinuðu þjóðirnar höfðu boðað árið 1975 sem sérstakt kvennaár til að flýta jafnréttisþróun og lagt til framkvæmdaáætlun til 10 ára á ráðstefnu í Mexíkó. Umræða á vettvangi norðurlandanna ýtti svo ennfremur við Íslendingum sem og íslenskar konur sjálfar.

Sagt var eftir á að lögin hefðu ekki verið nægjanlega framsækin en þau voru þó með mörg nýmæli bundin í lög sem ekki höfðu sést áður og þykja sjálfsögð i dag í flestum hlutum heimsins. Önnur atriði höfðu verið samþykkt áður sem hluti af öðrum lögum eins og ákvæði um almennan launajöfnuð kvenna og karla árið 1961 en opinberir starfsmenn höfðu áður verið fyrsta starfsstéttin sem hlaut lögverndað launajafnrétti árið 1954.

Þessi munur milli kynjanna í launum var þó viðvarandi og erum við ennþá að vinna að minnkun kynbundins launamunar. Tiltók flutningsmaður nefndarálitsins og þingmaður Framsóknar, Gunnlaugur Finnson það sérstaklega að aðstöðumun milli kynjanna væri um að kenna þegar ungt fólk væri að vinna á sumrinn fyrir sínum skólakostnaði að það væri „ekki óalgengt að sumartekjur stúlkna séu rétt um það bil helmingurinn af því sem sumartekjur pilta eru.” Gunnlaugur velti einnig upp framtíðarhugleiðingum um stöðu kynjanna og þakkaði bændasamtökunum fyrir að hafa komið sterk til leiks á kvennaári Sameinuðu Þjóðanna 1975 en samtökin riðu á vaðið á aðalfundi sínum að samþykkja að opna aðild sína þannig að hjón ættu þar jafnan rétt.

Með samþykkt frumvarpsins var bundið í lög m.a. fræðsla um jafnrétti í skólum og öðrum menntastofnunum, að óheimilt væri að mismuna starfsfólki eftir kynferði og að störf laus til umsóknar væru opin bæði kynjum. Þingmenn af báðum kynjum studdu tillöguna og ræddu þá afstöðu í ræðustólnum en einnig var tekið fram að „íslenskar konur hafa verið mjög samhentar í því að þoka sínum málum áleiðis og ég hygg að þetta frv. sé einn árangurinn af þeirri samvinnu.”

Annarsstaðar í heiminum er staðan ekki sú sama. 52 ríki eru ekki með jafnrétti í sinni stjórnarskrá líkt og kveðið er á um í 65. gr. íslensku stjórnarskrárnar, 26 ríki veita kynjunum ekki jafna stöðu þegar kemur að erfðarétt og 60% af þeim sem skortir grunnmenntun á borð við lesskilning í heiminum eru konur.
 

Halda verður áfram að gera betur, í að útrýma kynbundnum launamun en einnig víðast hvar annarsstaðar í heiminum þar sem eru stærri og minni jafnréttisverkefni. Við Framsóknarkonur erum mjög stoltar af því hversu vel jafnréttisumræðan endurspeglast í markmiðum Íslands bæði innanlands og í utanríkisstefnu Íslands. Höldum áfram að gera vel ... saman.



Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×