Margrét Indriðadóttir, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins, lést á Líknardeild Landspítalans í gær. Margrét varð fyrst kvenna á Norðurlöndum til að gegna starfi fréttastjóra á ríkisfjölmiðli.
Margrét fæddist á Akureyri árið 1923, dóttir Laufeyjar Jóhannsdóttur húsmóður og Indriða Helgasonar, rafvirkjameistara og kaupmanns.
Margrét lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1943 og starfaði að því búnu á Morgunblaðinu í þrjú ár en hélt þá til náms í blaðamennsku í Bandaríkjunum þar sem hún lauk BA-prófi frá School of Journalism við Minnesota háskóla árið 1947.
Eftir heimkomu starfaði hún á Morgunblaðinu og skamma hríð á Tímanum en var árið 1949 ráðinn fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins, fyrst kvenna. Margrét varð fréttastjóri þar árið 1968, fyrst kvenna á Norðurlöndum. Hún lét af störfum árið 1986. Starfsferill hennar á fjölmiðlum spannar þannig 43 ár.
Hún hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal hin norrænu Nordfag-verðlaun 1991 og hina íslensku fálkaorðu árið 2007.
Margrét Indriðadóttir var gift Thor Vilhjálmssyni rithöfundi og áttu þau tvo syni, Örnólf og Guðmund Andra.
Margrét Indriðadóttir fallin frá
Bjarki Ármannsson skrifar
