Í dag má forsetaframboð ekki kosta meira en 37,5 milljónir króna og hámarksframlag frá hverjum lögaðila eða einstaklingi er 400 þúsund krónur. Eftir kosningarnar þarf að skila inn uppgjöri til Ríkisendurskoðunar þar sem upplýsa þarf um hvaða lögaðilar styrktu framboðið og framlög einstaklinga um meira en 200 þúsund krónur. Í síðustu forsetakosningum, árið 2012, var framboð Þóru Arnórsdóttur dýrasta framboðið, kostaði 17,3 milljónir króna uppreiknað en framboð Ólafs Ragnars kostaði 7 milljónir króna.

Andrés segir að til þess að safna fé fyrir kosningabaráttu þurfi oft að hafa efnað fólk eða áberandi forstjóra til að geta náð sambandi við annað efnað fólk á jafningjagrundvelli. „Þú verður að fá einhverja sem eru líka ríkir eða líka áberandi stórforstjórar eða annað til þess að nálgast þetta fólk. Það skiptir miklu máli að vera með lið sem er með mikinn aðgang að fyrirtækjum eða vel efnuðum einstaklingum, það gerist eiginlega ekki öðru vísi,“ segir hann.
Andrés segir að þótt það sé jákvætt skref að gefa þurfi upp hverjir styrki frambjóðendur og stjórnmálaflokka hafi það dregið úr vilja fyrirtækja til að styrkja stjórnmálastarf. Því veltir Andrés því upp hvort ekki ætti að styrkja forsetaframbjóðendur úr ríkissjóði líkt og gert er í tilfelli stjórnmálaflokka en í leiðinni fjölga nauðsynlegum fjölda undirskrifta sem þyrfti til að bjóða sig fram.

Andrés segir kosningabaráttuna fyrst og fremst ráðast í sjónvarpi en ekki á framboðsfundum eða hringferðum um landið. „Þetta er beisiklí tímaeyðsla að vera að halda einhverja opna fundi, það koma örfáir og það fer rosaleg orka í að smala á þessa fundi,“ segir hann.
„Þórudagurinn er dæmi um eitthvað sem bæði kom illa út og var örugglega of mikil fyrirhöfn,“ segir Andrés sem aðstoðaði við forsetaframboð Þóru Arnórsdóttur árið 2012. Þóra hafði forskot í skoðanakönnunum í upphafi kosningabaráttunnar en að lokum vann Ólafur Ragnar með 53 prósentum atkvæða en Þóra endaði með 33 prósenta fylgi.
„Mín meginskýring var að hún var ekki vön því að vera frambjóðandi í stjórnmálabaráttu og Ólafur Ragnar breytti þessu í alvöru töff stjórnmálabaráttu,“ segir Andrés.
„Það sem skiptir fyrst og fremst máli er hvernig frambjóðendur koma fyrir í sjónvarpi,“ segir hann.Sigmundur Davíð hafi fallið sem forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali við sænska ríkissjónvarpið og hugsanlega Ólafur Ragnar í viðtali við CNN þegar hann neitaði því að hann eða fjölskylda hans hefðu tengsl við aflandsfélög. „Bjarni Ben bjargaði sér í sjónvarpi. Það er hægt að taka mörg dæmi bara úr íslenskri pólitík.“