Innlent

Halla með miða á alla leiki Íslands í Frakklandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Halla Tómasdóttir mælist með eitt prósent fylgi samkvæmt nýjum skoðanakönnunum. Hún segir ekki mark takandi á könnunum af alvöru fyrr en eftir 21. maí þegar framboðsfrestur rennur út.
Halla Tómasdóttir mælist með eitt prósent fylgi samkvæmt nýjum skoðanakönnunum. Hún segir ekki mark takandi á könnunum af alvöru fyrr en eftir 21. maí þegar framboðsfrestur rennur út. Vísir/Anton Brink
Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi klæddist treyju íslenska landsliðsins í knattspyrnu á Business and Football ráðstefnunni í morgun. Hún á miða á alla leiki karlalandsliðsins á EM í Frakklandi í sumar og sagðist í pallborðsumræðum í dag, meira í gríni en alvöru, velta fyrir sér að hætta við framboð sitt og skella sér bara á EM.

„Ég fer allavega á Portúgalsleikinn,“ sagði Halla sem mælist með eitt prósent fylgi í skoðanakönnun fréttastofu 365 en niðurstöður voru birtar í morgun. Halla var með 1,7% fylgi í könnun MMR á mánudaginn. Ísland mætir Portúgal í St. Etienne þann 14. júní en um fyrsta leik Íslands í riðlinum er að ræða.

Sjá einnig:Kevin Keegan spáir Íslandi sigri á EM

Halla var í pallborði með Kevin Keegan, David Moyes og Andra Þór Guðmundssyni hjá Ölgerðinni þar sem til umræðu var hvernig ætti að byggja lið frá grunni. Halla rifjaði upp þegar hún var við háskólanám í Alabama í Bandaríkjunum og tók að sér þjálfun strákaliðsins í fótbolta.

„Það voru tvær stjörnur í liðinu, sá sem gat hlaupið rosalega hratt og sá sem skoraði mörkin,“ sagði Halla. Hún hefði áttað sig á því að gera þyrfti breytingar til að ná árangri. Hún fór að sækja leikmenn til skandinavíu og Bretlands. Það hafi ekki verið fyrr en liðið hafi verið orðið jafnara, og treysti ekki lengur á fyrrnefnda tvo leikmenn, sem liðið fór að vinna leiki.

Halla sagði trúa því að þegar verið væri að byggja upp lið ætti ekki bara að horfa á hæfileika fólksins sem þú vilt í liðið heldur líka hjartað. Það væri lykillinn að velgengni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×