Erlent

Mótmælendur og stuðningsmenn Trump tókust á

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Til átaka kom á milli mótmælenda og stuðningsmanna Donald Trump eftir kosningafund forsetaframbjóðandans í San Diego í nótt. Lögreglan segir að 35 hafi verið handteknir. Rúmlega þúsund manns mótmæltu Trump en San Diego er nærri landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna þar sem Trump segist ætla að byggja vegg, verði hann kjörinn forseti.

Um þriðjungur íbúar borgarinnar eru af rómönskum uppruna.

Eftir að kosningafundinum lauk og stuðningsmenn Trump yfirgáfu ráðstefnuhöllina kom til átaka á milli fylkinga sem grýttu vatnsflöskum og jafnvel grjóti sín á milli. Tugir lögregluþjóna í óeirðarbúnaði voru á vettvangi og komu á milli fylkinganna.

Lögreglan segir að engar skemmdir hafi verið gerðar og að enginn hafi slasast.

Donald Trump tísti til lögreglunnar í San Diego eftir á og þakkaði þeim fyrir að hafa tekið á „fautunum“ sem reyndu að skemma friðsaman kosningafund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×