Ármenningurinn Aron Freyr Axelsson er nú staddur í Bern í Sviss þar sem hann er að keppa á Evrópumóti unglinga í áhaldafimleikum karla.
Aron Freyr er einn af fimm meðlimum unglingalandsliðsins en hinir eru Atli Þórður Jónsson (Gerpla), Jónas Ingi Þórisson (Ármann), Martin Bjarni Guðmundsson (Gerpla) og Stefán Ingvarsson (Björk).
Aron Freyr Axelsson hefur reyndar fengið langmestu athyglina af þessum fimm því hann hélt upp á sextán ára afmælið sitt út í Bern.
Aron Freyr Axelsson varð í 80. sæti í fjölþrautinni en á undan honum af íslensku strákunum voru þeir Martin Bjarni Guðmundsson (64. sæti), Jónas Ingi Þórisson (76. sæti) og Atli Þórður Jónsson (78. sæti). Stefán Ingvarsson var varamaður.
Jónas Ingi, Martin Bjarni, Atli Þórður og Aron Freyr stóðu sig alveg rosalega vel eins og segir í umfjöllum um þá á fésbókarsíðu fimleiksambandsins og þar segir að þeir allir hafi verið að sýna sitt besta.
Fimleikavaktin er fésbókarsíða fimleikafólks á Íslandi og hún hefur verið dugleg að birta myndbönd af okkar fimleikafólki í keppni á erlendri grundu.
Fimleikavaktin sagði líka frá þeirri sérmeðferð sem Aron Freyr Axelsson fékk út í Bern en það getur stundum verið smá vandræðalegt að eiga afmæli á miðju stórmóti.
Það var ekki aðeins sungið fyrir hann í keppnissalnum heldur fékk hann einnig afmælisköku þegar keppni dagsins var lokið. Allt var síðan tekið upp enda mjög skemmtilegar uppákomur sem gerðir afmælisdaginn einstaklega eftirminnilegan fyrir Aron.
Hér fyrir neðan eru tvö myndbönd frá Fimleikavaktinni frá afmælisdegi Arons og svo enn neðar eru myndbönd af æfingum hans sem Fimleiksambandið setti inn á sína fésbókarsíðu.
Sport