Erlent

Segir þjóðarleiðtoga uggandi vegna fáfræði Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að margir þjóðarleiðtogar heimsins séu uggandi yfir framgangi forsetaframbjóðandans Donald Trump. Hann sagði þá hafa ástæðu til þess þar sem Trump hefði sýnt fram á fáfræði varðandi utanríkismál og ummæli hans og tillögur virtust oftar en ekki miða að því að fanga umfjöllun og fá fyrirsagnir, frekar en að tryggja öryggi Bandaríkjanna.

Þetta sagði forsetinn á leiðtogafundi G7-ríkjanna sem nú stendur yfir í Japan.

Hann tók einnig fram að þjóðarleiðtogar sem Obama hefði rætt við væru ekki vissir um hve alvarlega þeir ættu að taka ummælum Trump.

Ummæli Trump hafa margsinnis valdið fjaðrafoki víða um heim. Fyrrum forseti Mexíkó hefur kallað Trump „hataða hvítingjann“ og borgarstjóri Parísar hefur sagt hann vera „mjög heimskan“.

Meðal þess sem Trump hefur sagt er að banna ætti öllum múslimum að fara til Bandaríkjanna, að hann ætli sér að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, hann sagði að yfirvöld í Mexíkó væru að senda glæpamenn og nauðgara til Bandaríkjanna. Trump hefur einnig sagst vera tilbúinn til að funda með Kim Jong-Un og að samband hans við Bretland ætti ekki eftir að vera gott, yrði hann forseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×