Innlent

Ólafur Ólafsson var um borð í þyrlunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi skammt frá Nesjavallavirkjun í kvöld.
Frá vettvangi skammt frá Nesjavallavirkjun í kvöld. Vísir/Jói K
Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa var um borð í þyrlunni sem brotlendi skammt frá Nesjavallavirkjun í kvöld samkvæmt öruggum heimildum Vísis. Þyrlan er í eigu Ólafs og er nýkomin til landsins frá Sviss. Um borð voru Ólafur, íslenskur flugmaður og þrír útlendingar.

Sjálfur er Ólafur áhugamaður um þyrlur og er með þyrlupróf en var ekki við stjórn þyrlunnar þegar hún brotlenti. Allir farþegar þyrlunnar voru fluttir á Landspítalann. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum verða tveir undir eftirliti í nótt og þrír lagðir inn vegna beinbrota og annarra meiðsla.

Sjá einnig:Nágrannadeilur og 150 milljóna króna þyrla Ólafs Ólafssonar

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 19:45 í kvöld tilkynning í gegnum gervihnattatungl að neyðarboð hefði borist frá þyrlu sem stödd var á Hengilssvæðinu. Þá þegar voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út og var þyrla farin í loftið skömmu seinna.

 

Ólafur Ólafsson.vísir/vilhelm
Stuttu eftir að neyðarboð hafði borist til Landhelgisgæslunnar náðu farþegar um borð í þyrlunni að hringja á Neyðarlínuna og gefa upp nákvæmari staðsetningu þyrlunnar og upplýsingar um ástand fólks um borð.

Um 20:20 var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar búin að finna þyrluna og rétt um tíu mínútum síðar hafði hún náð að taka alla farþegana fimm um borð. Var þá björgunarsveitum og slökkviliði snúið til baka. Flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með farþegana á sjúkrahús í Reykjavík þar sem þeir voru settir í rannsókn. Meiðsli þeirra eru talin minniháttar.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×