Erlent

Byssueigendur styðja Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
National Rifle Association, eða samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, hafa lýst yfir stuðningi við forsetaframboð Donald Trump. Samtökin segja tímabært að standa við bakið á Repúblikönum, því ef Hillary Clinton verði forseti muni hún taka byssurnar af fólki.

„Við þurfum að sameinast og við þurfum að sameinast strax,“ sagði Chris Cox, háttsettur meðlimur samtakanna, á ársfundi þeirra í dag.

AFP fréttaveitan segir að stuðningsyfirlýsingin komi ekki á óvart. Hins vegar sé tímasetningin sérstök. Stuðningsyfirlýsing NRA kom mánuði fyrr en í tveimur síðustu kosningum. Það gefi í skyn að samtökin vilji hjálpa flokknum þar sem framboð Trump hefur valdið miklum deilum.

Trump hélt ræðu á ársþinginu þar sem hann gagnrýndi Clinton harðlega fyrir að styðja við hugmyndir um að draga úr byssueign. Hann sagði að slíkar aðgerðir myndu gera íbúum hættulegra svæða ómögulegt að verja sig. Þar að auki sagði hann að Clinton myndi afnema annað ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna sem fjallar um að allir eigi þann rétt að bera vopn. Þá lofaði Trump því að afnema öll svæði sem er skilgreind sem „byssulaus“.

Trump hélt því einnig fram að Clinton myndi sleppa hættulegum glæpamönnum úr fangelsi og stofna löghlýðnum borgurum í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×