Erlent

Kvartar yfir hæfni dómara

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump forsetaframbjóðandi er ekki par sáttur við að dómari í máli gegn honum sé mexíkóskættaður.
Donald Trump forsetaframbjóðandi er ekki par sáttur við að dómari í máli gegn honum sé mexíkóskættaður. Nordicphotos/AFP
Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana í Bandaríkjunum, segist efast um að dómari sem aðhyllist íslam yrði honum sanngjarn í réttarsal þar sem hann hefur talað fyrir tímabundnu banni á flutning múslima til Bandaríkjanna. Ummælin lét Trump falla í viðtali á CBS í gær.

Trump sagði í vikunni að mexíkóskættaður dómari í máli fyrrverandi nemenda Trump University gegn honum væri ósanngjarn og vanhæfur til að gæta hlutleysis. Ástæðuna segir Trump áform sín um að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós.

Þáttastjórnandinn John Dickerson spurði Trump hvort honum myndi finnast hið sama um dómara sem aðhylltist íslam. Þegar Trump svaraði játandi spurði Dickerson: „Er ekki hefð fyrir því í Bandaríkjunum að dæma fólk af verðleikum sínum?“ Svaraði Trump þá: „Ég er ekki að tala um hefðir, ég er að tala um almenna skynsemi.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. júní


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×